Your site
21. desember, 2024 15:46

Í upphafi skyldi upphafið skoða

Upphafið er sérstakur tími… Fyrstu skrefin, byrjun bókar, fyrstu kynnin, fyrstu mínúturnar í kvikmynd, eða upphaf námskeiðs… Orðatiltækin gefa okkur þetta skýrt til kynna: „Lengi býr að fyrstu gerð“. „Gott upphaf fær góðan endi“ og fleiri. Málinu er líkt farið um alls konar atburði þar sem fólk kemur saman eins og námsferli alls konar. Upphaf náms, námskeiðs eða hvers konar námsferlis með fullorðnum er iðulega erfiður og viðkvæmur tími bæði fyrir þátttakendur og leiðbeinanda.

Upphafið er einstakur tími

Ég held það breyti engu að ég sé vanur að stýra alls konar atburðum þar sem fólk vinnur saman, það er iðulega þannig að þegar ég mæti sem þátttakandi á nýjan stað og þekki fáa eða engan, þá mæti ég með ákveðinni varúð i huga, eftirvæntingu og bíð gjarnan eftir því að sá sem boðaði til fundarins, eða kennarinn á námskeiðinu taki stjórnina og gefi skýrar hugmyndir það sem er framundan. Ég þekki það sama þegar ég er í hlutverki stjórnandans og fylgist með fólki sem kemur á ráðstefnur eða námskeið sem ég ber ábyrgð. Það sést á líkamstjáningu þeirra sem koma, að þeir eru á svipuðum stað: Upphaf atburðar eins og námskeiðs er sérstakt og það virðist bera í sér sína eigin „lógík“, spurningar og viðfangsefni. Karlheiz Geißler komst að sömu niðurstöðu í bók sinni Anfangssituationen (Upphafsaðstæður). Í bókinni lýsir hann ljómandi vel þeim aðstæðum sem virðast innbyggðar í upphaf námskeiðs, greinir þær og skoðar og leggur síðan til nokkrar leiðbeiningar um framhaldið. Sjá stuttan utdrátt úr bókinni

20160209_163905

Það virðist engin leið framhjá upphafinu, en leiðbeinandi getur notað ýmsar leiðir til þess að gera sér og þátttakendum það auðveldara og tryggja að þátttakendur námsferlisins geti sem fyrst einbeit sér að náminu. Aðferðirnar leysa ekki vandan en eru nauðsynlegar til þess að þátttakendur geti sem fyrst komist í gegnum upphafsaðstæðurnar og einbeitt sér að því að læra. Þá hafa margir tekið eftir því að það þýðir heldur ekkert að reyna að svindla sér í kringum upphafið og byrja strax að kenna: Þátttakendur sem eru nýjir á tilteknu námsferli eða námsaðstæðum eru svo uppteknir af upphafsspurningunum að þeir muna lítið sem ekkert frá fyrstu augnablikum námskeiðsins, amk. virðast mjög margar upplýsingar fara fyrir ofan garð og neðan, þannig að það er vert að huga að því að nemendur hafi aðgang að hagnýtum upplýsingum á öðru formi en töluðu máli í upphafi námskeiðsins og einnig að sneiða hjá því að byrja að kenna fyrr en þátttakendur eru komnir í gegnum byrjunarfasann.

Athafnir leiðbeinandans í fyrsta hluta námsferlis ættu þar af leiðandi að hafa eftirtalin markmið.

  • Stuðla að því að skapa öryggi meðal þátttakenda.
  • Hjálpa þátttakendum að kynnast innbyrðis.
  • Gefa þátttakendum yfirlit yfir markmið, innihald og kennsluaðferðir.
    (Hjálpaðu þátttakendum að gera sér grein fyrir hvað þeir munu kunna í lok námskeiðsins. Skýr markmið í upphafi vekja áhuga þátttakenda á námsefninu og von um að þeir hagnist á námskeiðinu.)
  • Gera þátttakendum grein fyrir til hvers verður ætlast af þeim í námsþættinum (samvinnu, frumkvæði, sjálfsábyrgð í námi, heimavinna o.s.frv.)

Það eru margar leiðir færar til þess að takast á við upphafið. Eftirtalin gátlisti hefur gagnast mér ákaflega vel í gegnum árin. Það er ekki nauðsynlegt að fara í gegnum hann allan, en hann getur nýst sem sniðmát sem maður lagar að sérhverjum nýjum aðstæðum eða verkfærakista þar sem maður velur viðeigandi verkfæri fyrir sérhvert tilfelli.

7 skref við upphaf námsferils

20160209_163852
Hér fyrir neðan má finna nokkrar hugmyndir um skref sem kennari – fullorðinsfræðari – getur tekið til að leiða hóp þátttakenda í gegnum byrjunarfasa námsferlis. Það má líta á þennan lista sem sniðmát eða verkfærakistu. Þú velur það sem passar og raðar því saman eftir aðstæðum.


1) Lýsing / Kennsluáætlun: Með því að skrifa skýra námskeiðslýsingu og/eða kennsluáætlun fyrir námsferlið sem þú ert að undirbúa getur þú undirbúið þátttakendur undir það sem þeir eiga í vændum. og sé námskeiðslýsingin vel skrifuð leiðir hún til þess að „réttir“ þátttakendur velja sig inn á námskeiðið og hinir sem hafa ekkert að gera á námskeiðið koma ekki. Þar er gagnlegt að svara spurningum eins og: Hver er markhópurinn, Hver eru þáttökuskilyrði . Á hvaða tíma fer ferlið fram? Hver er kostnaðurinn? Hver eru markmið og innihald námskeiðsins? Hvaða aðferðir verða notaðar? Hvernig verða samskipti á námskeiðinu og í kring um það? Góð lýsing sem inniheldur jafnvel tilvísun í námsefni, myndbönd eða annað efni sem tengist námskeiðinu getur jafnvel lengt námstímann, því þátttakendur geta byrjað að undirbúa sig fyrir námskeiðið áður en það hefst.

2) Heilsa fólki: Það munar miklu að það sé tekið vel og vingjarnlega á móti þátttakendum hverjum og einum um leið og þeir koma á fundarstað. Þannig að þeir vita strax að þeir eru á réttum stað og geta byrjað að kynnast sessunautum sínum. Þetta kallar á að kennarinn hafi mætt tímanlega og sé búinn að undirbúa stofuna áður en flestir þátttakendur fara að koma inn.

3) Kynna sig Það er góður siður kennara að kynna sig strax i upphafi kennslu. Það skapar tengsl milli þátttakenda og kennarans/fundarstjórans og það á þátt í því að skapa trúverðugleika í huga þátttakenda. Það er um að gera að hafa fyrstu kynningu stutta og hnitmiðaða, en að segja nóg til þess að þátttakendur geri sér grein fyrir þekkingu og reynslu kennarans í tengslum við viðfangsefnið. Það er nefnilega auðvelt að sýna fram á að fólk lærir frekar það sem það trúir og ef trúverðugleiki kennarans er ekki tilhlýðilegur mun það örugglega leiða til þess að þátttakendur læri síður það sem fyrir þeim er haft.

4) Útskýra skipulag Fullorðnir virðast síður vilja taka þátt í ferlum og atburðum þar sem þeir vita ekkert út í hvað þeir eru að láta leiða sig. Margt bendir til að þeir séu öruggari ef þeir fá nauðsynlegar hagnýtar upplýsingar strax í upphafi. Það er um að gera að kynna mikilvægustu atriði í tengslum við húsnæðið, salerni, mötuneyti o.s.f. Skipulag námskeiðsins og þess háttar þarf að ræða í passlegri dýpt. Mér hefur reynst vel að láta þátttakendalista ganga og ljósrita hann fyrir þátttakendur, það hefur margþættan tilgang: Það auðveldar nemendum að vera í sambandi við hvern annan á meðan og eftir námskeiðið til þess að rifja upp eða vinna áfram með námsefnið og það getur líka hjálpað fólki að rifja upp námskeiðið þegar það sér nafnalistann og man eftir fólki sem var með því á námskeiðinu.

5) Kynna og ræða markmið Öll námskeið hafa markmið og skýr framsetning þeirra og umræða um þau hjálpa þátttakendum að átta sig á hvert stefnir, það getur átt þátt í að skapa áhuga fyrir námskeiðinu og niðurstöðu þess, eykur öryggi og getur vakið tilhlökkun yfir námskeiðinu.

Þá er og gott að ræða um markmið, gera markmið þátttakenda opinber og jafnvel þykir það rétt amk. þegar unnið er með fullorðnum að virkja þátttakendur sjálfa til að vinna með og ákveða markmið námskeiðs sem þeir taka þátt í. (Rökstuðning fyrir þessu má t.d. finna í umfjöllun Malcolm Knowles um Andragogy og fullyrðingar hans um fullorðna námsmenn)

6. Þátttakendur og leiðbeinendur kynnast Nú er komið að því að auðvelda þátttakendum að vinna saman sem hópur. Fólk er samankomið á námskeið, á sama stað og tíma – á vef eða starfssamfélag á vefnum – til þess að læra saman, llæra hvert af oðru, og það er hlutverk kennarans að búa til þannig aðstæður að það gerist. Það er hluti af verkefni leiðbeinanda, fullorðinsfræðara eða fundarastjóra að stuðla að því að þátttakendur nái að vinna þannig saman að þeir græði á því að vera saman í herbergi, eða þátttakendur í sama vefumhverfi – hvort sem samskiptin fara fram í rauntima eða ekki.
Kennarinn er sá sem er i þeirri aðstöðu að geta (Það er svo sem það sem við erum að gera með þessum sjö skrefum). Hvað gerir þú til að hjálpa fólki að kynnast? Hér er málið að velja aðferðir sem eru í samræmi við markmið og samhengi námskeiðsins. Einu sinni kenndi ég heils dags námskeið um það sem ég er að skrifa hér. Kennararnir sem sóttu það námskeið voru allir að kenna við sama skóla og einn þeirra sagði mér nokkrum mánuðum síðar að hann hefðu farið í einu og öllu eftir þessum leiðbeiningum með öllum nema einum hópnum, og tók hann eftir því að sá hópur var MUN lengur að komast í gang með námið en hinir. Umræður voru stirðari og nemendur lengur að átta sig á viðfangsefnunum. Nokkrar aðferðir sem koma til greina til að hjálpa þátttakendum að kynnast:

Fleiri aðferðir má finna:

7. Byrja kennslu / Upphitun Nú er ekki eftir neinu að bíða. Þátttakendur eru orðnir spenntir að takast á við námsefnið. Þá er um að gera að byrja með innihaldi og jafnvel hagnýtu verkefni þar sem þátttakendur fá strax að finna fyrir því hvað þeir muni geta gert að námskeiði loknu. Það getur verið að skrifa bréf með ritvinnsluforriti og prenta það, baka einfalda köku sem tekur stuttan tíma að baka en bragðast vel. Þátttakendur fá að finna hvernig það er að kunna, geta, vita það sem námskeiðið allt mun færa þeim.

Þetta voru sjö skref sem leiða til góðrar byrjunar á námskeiði, námsferli eða fundi þar sem hugmyndin er að þátttakendur vinni saman og hagnist a samvinnunni. Það má nota þessar aðferðir í þessari röð eða raða upp á nýtt, nota sumar eða allar. Aðal málið er að taka frá tíma i upphafi til þess að leiðahópin í gegnum byrjunarfasann og hjálpa þátttakendum að verða að starfhæfum hópi.

Skildu eftir svar