Um notkun félagsmiðla í kennslu
Í dag átti ég ánægjulega stund með kennurum við Menntaskólann í Kópavogi. Ég leiddi þar verkstæði um notkun félagsmiðla í kennslu. Við byrjuðum á því að ræða saman um það hvers vegna þau eru framhaldskólakennarar. Þau gáfu margar góðar ástæður fyrir því, við notuðum aðferð sem er gjarnan kölluð 1, 2 og allir. Niðurstöðuna settum við saman á hugarkorti:
Vertu leiðtogi
Eitt sem ég tók eftir í samtali okkar var að kennararnir tjáðu gjarnan brennandi áhuga á faginu sínu og áhuga á að miðla af þekkingu sinni. Ef við hugsum um það þá eru ekki endilega margir sem hafa þekkingu á þeim sviðum sem framhaldskólakennarar kenna og að þar að auki hefur hver þeirra sína einstöku rödd, sína reynslu, þekkingu og sjónarhorn sem er sérstök fyrir hvern og einn þeirra. Þannig að framhaldsskólakennarar hafa fulla ástæðu til að taka að sér ákveðið leiðtogahlutverk í sínu fagi. Þeir eru leiðtogar fyrir nemendur sína og alla aðra sem hafa áhuga á þeirra fagi og þeirra nálgun og sérstaka sjónarhorni á sitt fag. Félagsmiðlar eru kjörinn vettvangur fyrir framhaldsskólakennara að koma reynslu sinni og þekkingu á framfæri og til að miðla þekkingu til nemenda sinna og annarra sem hafa áhuga á þeirra fagi. Hvort sem þeir gera það með því að skrifa um fagið sitt eða með því að miðla skrifum annarra um það. Verkfærin eru til, þau eru einföld og ókeypis. Hlustaðu á skemmtilegan fyrirlestur um þetta frá Seth Godin:
Hvað eru félagsmiðlar?
Félagsmiðlar eru alls konar vefþjónustur sem gera fólki kleift að birta alls konar stafrænt efni: Texta, myndir, myndbönd eða hljóðupptökur þannig að aðrir geti notið þeirra, og brugðist við – í sömu mynt, eða með öðrum hætti, svo sem að svara með athugasemdum. Hér eru nokkur dæmi:
Hvers vegna nota félagsmiðla?
En þú gætir spurt, hvers vegna ætti ég sem framhaldskólakennari að nota félagsmiðlana í kennslu minni. Kennararnir sem voru á verkstæðinu notuðu einn félagsmiðil til að svara þessari spurningu: Smelltu hér til að sjá svör þeirra. Mín svör má flokka undir eftirtaldar fjórar fyrirsagnir: Notkun félagsmiðla getur sem sagt átt þátt í auknum gæðum kennslu. Það getur til dæmis gerst með bættu upplysingaflæði til nemenda (t.d. í gegnum Facebook), með því að kennarar noti fjölbreyttar leiðir til að vera í tengslum við nemendur eða með kennarar noti miðla sem nemendur eru sjálfir að nota. Sömuleiðis er kjörið fyrir kennara að nota félagsmiðla til þess að skapa tækifæri til að ræða og læra með nemendum sínum um notkun internetsins bæði kosti þess galla og hættur. Þannig geta þeir átt þátt í að ala upp nyja kynslóð ævinámsmanna, sem kunna að nota ólíka miðla til að læra og láta að sér kveða á jákvæðan hátt. Noktun félagsmiðla við kennsluna getur átt þátt í að auka áhuga nemenda á náminu með ýmsu móti: Miðlarnir sjálfir höfða til sumra og fyrst námið fer að einhverju leiti fram með aðstoð þeirra getur það gert námið áhugaverðara fyrir suma. Félagsmiðlar hafa ýmsa þætti sem geta aukið tilfinningu nemenda fyrir því að þeir séu hluti af heild, má þar nefna bætt boðskipti og upplýsingaflæði, bætt aðgengi að kennara og öðrum nemendum. Stutt myndbönd eða pistlar um næsta skipti í kennslunni hafa sýnt sig að skapa tilfinningu nemenda fyrir því að tilheyra heildinni. Margar kenningar um nám lýsa námi sem félagslegri athöfn. Sumir halda því fram að nám eigi sér fyrst og fremst eða best stað í samfélagi við aðra. Félagsmiðlar bjóða marga möguleika til að leyfa nemendum að gera nám sitt sýnilegt og að fylgjast með öðrum læra.
Fyrirlestur um sama efni haldinn á málþingi Iðnú:
Dæmi um mögulega notkun félagsmiðla í kennslu:
Skrifum saman
Ritun er miðlægur þáttur í mörgu námi, framhaldskólanemenar þurfa að læra að skrifa góða texta, þeir geta lært í gegnum það að skrifa og þeir þurfa að læra handverkið að skrifa: t.d. má halda því fram að textar verði yfirleitt til í samvinnu fólks. Félagsmiðlar bjóða upp á marga möguleika fyir fólk að skrifa, birta skrif sín og að skrifa saman. Wiki þjónustur bjóða fólki að skrifa saman texta. Wiki býður upp á sérstakt svæði fyrir textann sem er í smíðum, annað svæði fyrir umræður UM ritun textans, og enn annað sem geymir ritunarsögu textans, sem auðveldar höfundum að sjá eldri útgáfur skrifanna, bera þær saman og jafnvel „spóla til baka“.
Það getur verið sniðugt að koma sér sjálfur upp bloggi í tengslum við kennslu sína, eða að láta nemendur sína blogga reglulega og æfa sig þannig í að skrifa. Fyrir nemendur getur blogg getur haft hlutverk námsdagbókar, eða ígrundunar um námið eða einfaldlega til að skila verkefnum á námskeiði/áfanga.
Þegar það kemur að því að skrifa texta saman býður Google Drive upp á ritvinnslukerfi þar sem margir geta skrifað á sama tíma í sama skjalið og maður sér hver er að skrifa hvar. Þá er auðvelt að skrifa athugasemdir út í spássiuna á meðan á skrifum stendur. Google Hangout býður uppá að höfundar sitji samtímis á veffundi og tali saman (í mynd) um skrifin.
Tengjumst
Félagsmiðlar auðvelda fólki að tengjast. Kennarar á verkstæðinu sögðu frá Facebook hópum sem þeir áttu þátt í í tengslum við nám sem þeir stunduðu. Þar var það frekar reglan en undantekning að all flestir vissu um nýjungar og breytingar innan við klukkustund eftir að tilkynnt var um þær í hópnum.
Önnur leið til að auka tengslin er að taka upp stutt myndbönd með ábendingum um það sem gerist í næstu viku á námskeiðinu. Rannsókn hefur sýnt að 2-4 mínútna myndband um næsta hluta námsins, átti meðal annars þátt í að láta nemendum finnst þeir vera hluti af heild. Myndböndin má birta á Moodle síðu námskeiðs, Vef námskeiðs eða Facebook hóp námskeiðs.
Miðlum námsefni
Margar leiðir eru til að miðla námsefni á vefnum. Hér verður aðeins farið inn á miðlun myndbanda, þinna eigin og annarra. Nú orðið er einfalt að búa til myndbönd, með upptökutækjum á flestum símum, myndavélum, fartölvum og spjaldtölvum. Kjörið er að vista myndböndinn á sérstökum þjónustum á vefnum til þess. YouTube er ein besta slíka þjónustan, hún er ókeypis, og þar nær maður til flestra. Stjórntæki YouTube bjóða upp á marga möguleika. Eins og að búa til svo kallaða „Play List“ þar sem maður safnar saman myndböndum sem tengjast ákveðnu þema, námskeiði, fyrirlestri, lykilefni. Slíka lista má meira að segja birta á síðum eins og þessari: Hér er einn af mínum með dæmum um ólíkar gerðir kennslumyndbanda: (Smelltu á strikin þrjú í vinstra horninu uppi til að fá yfirlit yfir allan listan og notaðu pílu hnappa til að fara á milli myndbanda)
Fylgjumst með og miðlum nýju efni úr faginu
Á vefnum má finna fjöldan allan fréttarita og upplýsingavefja með það nýjasta í öllum fræðasviðum. Viljir þú vera leiðtogi fyrir nemendur þína er ein leið að deila gagnlegu nýlegu lesefni til nemenda þinna og annarra lesenda. Fjöldi forrita eru til til þess að safna saman fréttum frá þeim fréttaveitum sem við fylgjumst með. Eitt uppáhaldsforritið mitt heitir FlipBoard. Ég er með það á símanum mínum og les gjarnan nýjustu greinar í mínu fagi og deili gagnlegum greinum með nemendum mínum. Einn kennari segir frá því í bloggi sem ég las um daginn að hann hefji stundum kennslustundir á því að sýna nemendum eina til tvær nýlegar greinar sem tengjast viðfangsefni dagsins. Þannig má bæði venja nemendur við það að fylgjast með því sem þeir eru að læra, á vefnum, þjálfa þá í vinnubrögðum og búa til tækifæri til að tala um vefinn sem miðil og verkfæri og hvernig má umgangast hann. Ein leið sem ég nota til að deila þessum greinum með nemendum mínum er að búa til lista á þjónustu sem heitir Diigo og deila þeim með nemendum mínum á námskeiðsvefjum
- Sjá slíkan lista á násmkeiðsvef sem er i gangi núna (hægra megin neðarlega)
- Diigo listi minn um félagsmiðla
- Leiðbeiningar um Diigo
Listi minn um félagsmiðla inniheldur greinar og myndbönd sem geta gefið þér hugmyndir um framhaldið, hugmyndir um leiðir til að nota félagsmiðla í kennslunni þinni. Við höfum aðeins komið inn á nokkrar leiðir til að nota félagsmiðla í kennslu. Hugmyndaflugið eitt getur hindrað okkur. Ég vona að þessi fáeinu orð gefi þér hugmyndir og komi þér af stað í því skemmtilega ævintýri sem er að hjálpa fólki að læra á allan mögulegan hátt, með alls konar aðferðum og verkfærum. Hér er hugarkortið sem ég notaði á verkstæðinu, þú getur ferðast í gegnum það og smellt á slóðir í meira efni (það tekur smá tíma að birtast):
(Eða smelltu hér til að sjá kortið í fullri stærð í nýjum flipa.)
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.