Your site
16. september, 2024 03:13

Heimurinn er flatur!

cc Non Comercial Reuse: flat_earth_world_by_fellmekke-d75rmxh see: fellmekke.deviantart.com

Flat Earth eftir fellmekke.deviantart.com CC BY-NC-ND

Fyrir nokkru las ég (eða eiginlega hlustaði ég á) bók eftir Thomas L. Friedman. Hann heldur þar fram að heimurinn sé að verða flatari með hverju árinu. Það sé samskiptatæknin; Vefurinn og símakerfin sem „stytta“ bilið milli fólks, þannig að fólk sem býr á sitthvorum heimsendanum getur verið samstarfsfólk eða keppinautar.  Það séu ekki lengur þjóðríki, sem séu keppunautar eins og á „fyrstu hattvæðingunni“ sem Marco Polo átti þátt í að hrinda af stað, né heldur eru það fyrirtækin sem eru keppinautarnir eins og í „seinni hnattvæðingunni“ sem iðnbyltingin kom af stað (og fyrsta heimstyrjöldin stöðvaði) heldur eru það nú á tímum þriðju hnattvæðingarinnar, einstaklingar sem eru keppinautarnir. Nú til dags keppa góðir forritarar útskrifaðir frá HR eða HÍ um forritarastöður hjá Eimskip. Þeir keppa ekki við gömul skólasystkyn,  heldur liggur allur heimurinn undir, og eins og er situr fjöldi indverja niðri í Sundahöfn við forritun fyrir fyrirtækið!  Og margir leita til endimarka jarðar eftir fólki til að vinna verk fyrir sig. Hvaða áhrif ætli þetta hafi á fullorðinsfræðslu á næstu árum?

==> Ræðum þetta aðeins: Ætli hnattvæðingin hafi áhrif á Ísland, íslendinga og það sem íslendingar þurfa að kunna, geta og vilja?

2 responses to Heimurinn er flatur!

  1. Hnattvæðingin er einmitt sá sjónarhóll sem ég kaus að standa á og horfa yfir sviðið bæði í BA verkefninu mínu um Skyndilegar ofsavinsældir lopapeysunnar á nýrri öld og eins í MA rannsókninni sem fjallaði um starfstengda sjálfssögu íslenskra ungmenna á 21. öldnni. Því meira sem ég les og hugsa um áhrif hnattvæðingar því skýrari verður sú hugmynd fyrir mér að heimurinn sé einmitt að „minnka“ en ekki „stækka“ eins og margir fræðimenn hafa talað um. En hvort heimsmynd okkar er að fletjast út þarf ég aðeins að melta. Frá þjóðfræðilegu sjónarhorni get ég og myndi færa rök fyrir því að í okkur flestum séu element að verki sem gera það að við bregðumst við hnattvæðingunni með því að upphefja hefðir og ýmislegt í þjóðmenningunni sem afmarkar og „tryggir“ sérstöðu hvers kyns hópa. En út frá starfsþróunarfræðunum er þetta eiginlega öfugt. Einstaklingurinn þarf að bregðast við þörfum vinnumarkaðar með símenntun og aðlögunarhæfni í meira mæli en áður.

  2. Já, vissulega hefur hnattvæðingin áhrif, en hún eykur ekki bara samkeppnina, heldur einnig möguleikana á að koma sér/sínum verkum á framfæri um allan heim. Mikilvægi tungumálaþekkingar eykst.

Skildu eftir svar