Um það að fylgjast með í kennslu

mar 12 2013 in by Hróbjartur Árnason

Eitt af verkefnum námskeiðsins snýst um það að fylgjast með öðrum kenna. Ein af þeim leiðum sem við notum oftast til að læra eitthvað er að fylgjast með öðrum sem gera það vel. Við fáum enn meira út úr því ef við erum búin að undirbúa hugann, og erum jafnvel með verkfæri með okkur til að skrá það sem við sjáum. Það er nefnilega ótrúlegt hvað við getum verið blind á það sem er að gerast í kring um okkur, ef við erum ekki að horfa eftir því, ef við höfum ekki þjálfað hugann í að taka eftir tilteknum hlutum. Við upplifum þetta gjarnan í daglega lífinu þegar við höfum t.d. keypt hlut og tökum allt í einu eftir því að slíkir hlutir eru allt í kring um okkur. Þegar ég keypti mér nýjan bíl einu sinni, þá sá ég allt í einu samskonar bíla úti um allt, ég hafði ekki tekið sérstaklega eftir þeim áður… Svona getum við auðveldlega breytt því sem við tökum eftir.

Til þess er þetta verkefni: A) að þið þjálfist í því að taka eftir því sem er í kennslu og B) að þið lærið hvert af öðru og af öðrum sem kenna fullorðnum. Ég held það sé ekki úr vegi að koma til leiks með slíkt jákvætt hugarfar: “Hvað get ég lært af þessum kennara í dag?”

Ekki er heldur úr vegi að kynna sér fræðileg skrif um það að fylgjast með kollegum kenna, s.k. peer review.

Varúðarorð: Ég tók eftir því fyrir nokkrum árum, að í bók um starfsþróun kennara og stefnumiðaðar aðferðir til þess var mælt með því að kennarar fylgdust með hver öðrum. Í nýrri útgáfu af bókinni höfðu höfundar breytt leiðbeiningum og uppástungum sínum. Núna lögðu þeir áherslu á að við heimsóknir í kennslu skyldu kennarar aðeins þakka fyrir það sem þeir lærðu, en ekki gagnrýna. Reynslan var nefnilega sú að þegar kennarar heimsóttu hvern annan í kennslustofuna og gagnrýndu hvern annan eftir á skapaði það úlfúð í kennaraliðinu. Þess vegna hvet ég til varúðar í viðbrögðum og hvet nemendur mína til að leggja áherslu á jákvæð viðbrögð við því sem vel er gert.

Þetta er hluti verkefnisins: “Kennsluæfing”