Hvað ertu með í pokanum?
Pokinn er óformleg aðferð við námskeiðsmat sem miðar að því að fá þátttakendur til að ígrunda í lok námskeiðs hvað þeir lærðu, hvaða þekkingu þeir taka með sér og munu nota þegar námskeiði lýkur. Með því að biðja þátttakendur að ígrunda og skrifa um efni námskeiðsins fást á einfaldan hátt upplýsingar um hvernig til hefur tekist, hvað stóð upp úr og hvað þátttakendur munu taka með sér heim. Þessar upplýsingar geta leiðbeinendur nýtt til að meta hvort markmið námskeiðsins hafa náðst.
Á verkefnablaðinu „Hvað ertu með í pokanum?“ er mynd af manni með afar stóran poka á bakinu. Verkefnið felst í því að biðja þátttakendur um að skrifa í pokann hugleiðingar sínar um hvað þeir hafa lært á námskeiðinu og hvaða þekkingu þeir munu taka með sér heim. Blaðinu er dreift til þátttakenda undir lok námskeiðs. Þátttakendur fá nokkrar mínútur til að skrifa niður hver fyrir sig. Að því loknu biður leiðbeinandi sessunauta um að ræða saman um pokana sína í nokkra stund og að síðustu deila hóparnir niðurstöðum sínum með námshópnum í heild. Leiðbeinendur geta valið hvort hver og einn þátttakandi fer heim með sitt blað eða hvort blaðinu er skilað nafnlausu til leiðbeinanda.
Af hverju?
Aðferðin er afar einföld og getur skilað miklu bæði til þátttakenda og leiðbeinanda. Kostur aðferðarinnar er t.a.m. að með því að fá þátttakendur til að ígrunda hvað þeir hafa lært og hvernig þeir ætla að nota það aukast líkurnar á því að yfirfærsla á lærdómi verði þ.e. að þátttakendur noti þekkinguna og jafnvel bæti við hana eftir að heim er komið. Með því að fá þátttakendur til að tengja námsefnið við sinn raunveruleika aukast líkurnar á að þekkingin muni nýtast þeim í framtíðinni.
Jafnframt er aðferðin einfalt námskeiðsmat sem gefur leiðbeinanda upplýsingar um hvort markmiðum námskeiðsins hafi verið náð og í framhaldinu getur leiðbeinandi metið hvað er hægt að gera til að bæta gæði námskeiðsins.
Heimildir og ítarefni:
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.