Virkjum þátttakendurna
Þátttakendur á námskeiðum eru í flestum tilfellum komnir á námskeiðið til þess að læra. Þeir eiga von á nýjum rannsóknarniðusrstöðum, kenningum, hugmyndum og aðferðum svo eitthvað sé nefnt. Þeir vilja gjarnan læra eitthvað nýtt, ná valdi á gagnlegum hugmyndum og aðferðum til þess að geta betur ráðið við verkefni sín, ný eða gömul. Þetta má lesa í rannsóknum um þátttöku fullorðinna í fræðslu og út úr væntingum þátttakenda til námskeiða sem þeir sækja.
Reglulega spyr ég þátttakendur á námskeiðum hvað þeir vilji fá út úr námskeiðinu:
Niðurstaðan er iðulega á þessum nótum: Þátttakendur vilja fá gagnlegar hugmyndir og aðferðir sem þeir geta nýtt í starfi sínu (sjá myndina að ofan, hún er dæmi úr samningaviðræðum við þátttakendur á námskeiði fyir nokkru).
En ef þátttakendur eiga að geta lagað þær hugmyndir og aðferðir sem þeir vilja læra að sínum veruleika og sínu starfi þurfa þeir tækifæri til að vinna með námsefnið. Það dugar ekki að heyra sniðugar hugmyndir og hlusta á frábæra fyrirlesara til að læra eitthvað. Nemandinn þarf að vinna með efnið. Það breytist lítið hjá fólki eftir að hafa heyrt áhugaverðan fyirlestur, meira þarf til ef fólk ætlar að nýta nýjar hugmyndir í lífi sínu. Í fullorðinsfræðslunni komur gjarnan fólk sem er upptekið í vinnu og hefur mikið að gera, í háskólanámi eru nemendur sem sækja mörg námskeið og margir þeirra hafa enga hagnýta reynslu af því sem þeir eru að læra og eiga því erfitt með að tengja námsefnið við veruleika og skilja hvaða afleiðingar það geti haft í framkvæmed. Þess vegna sýnist mér augljóst að það sé nauðsynlegt að bjóða nemendum upp á tækifæri til að vinna með námsefnið á námskeiðinu sjálfu. Það dugar ekki að reikna með því að það sé fullnægjandi að kynna námsefni á námskeiði og ætlast til þess að þátttakendur þess vinni sjálfir úr því heima eða í vinnunni. Til þess skortir þá iðulega tíma, samhengi og jafnvel stuðning. Sömuleiðis er ekki víst að þeir hafi nægilega þekkingu á efninu til að spyrja sig gagnlegra spurninga og finna sjálfir leiðir til að laga nýja þekkingu að því samhengi sem þeir vilja nota það sem þeir eru að læra.
Enn annað sjónarhorn er að fólk sem sækir námsatburði eins og námskeið, ráðstefnur og málstofur í tengslum við starf sitt eða áhugamál, gerir það líka til að skiptast á skoðunum og heyra af reynslu kollega sinna sem vinna með svipuð viðfangsefni í öðru samhengi og jafnvel til að fá tækifæri til að vinna með nýjar hugmyndir í samtali við kollega sína.
Rökrétt afleiðing af þessu er að skipuleggja námsatburði þannig að þátttakendur fái bæði tækifæri til að heyra nýjar hugmyndir eða skipulega útlistun á námsefni og stuðning til að vinna með hugmyndirnar og tengja þær við eigin reynslu og þekkingu. Þess vegna er rétt að huga jafn mikið að því að skipuleggja áhugaverða og sannfærandi kynningu á innihaldi námskeiðsins og að virkja þátttakendur til að vinna á gagnlegan hátt með námsefnið.
Til þess eru til margar og einfaldar aðferðir. Þær þarf að nota af skilningi og heiðarleika:
- Það þarf að vera ljóst frá upphafi námskeiðsins að þátttakendur muni vinna með námsefnið
- Það þarf að nota tíma til að gera hópinn vinnuhæfan m.a. með því að hjálpa þátttakendum að kynnast í upphafi og að láta þá finna það áþreifanlega að þátttöku þeirra er vænst og framlag þeirra skipti máli fyrir framgang atburðarins.
- Þátttakendum þarf að finnast verkefnin tengjast viðfangsefninu og vera þess virði að vinna með.
- Sömuleiðis þurfa þeir að finna að niðurstaðan skipti bæði skipuleggjendur og aðra þátttakendur máli. Það er erfitt að vekja áhuga þátttakenda á að vinna verkefni ef kennari, fyrirlesari eða aðirir þátttakendur hafa ekki áhuga á að sjá niðurstöðu vinnunnar.
Hér fyrir neðan eru slóðir í efni sem ég hef útbúið undanfarin ár sem inniheldur forsendur, útskýringar og aðferðir sem hafa nýst mér vel til að virkja þátttakendur á námskeiðum:
- Hugakort með yfirlit yfir forsendur þess að virkja þátttakendur:
- Einn – fleiri og allir Aðferð fyrir allar tegundir þankahríðar þar sem þátttakendur byrja fyrst á því að vinna einir með viðfangsefnið, bera síðan bækur sínar saman við nokkra þátttakendur og í lokin eru málin rædd í öllum hópnum. Dugar jafnt fyrir litla sem stóra hópa. Hún gagnast bæði við upphaf námskeiðs, til að koma hópnum af stað, í miðjum fyrirlestri til að fá þátttakendur til að vinna með afmarkaða hluta fyrirlestursins eða í kjölfar kynningar á efni til að gefa þátttakendum tækifæri til að vinna með innihaldið.
- Hugarkort um það að virkja þátttakendur í tengslum við fyirirlestra
- Aðferðir sem má nota til að auka virkni þátttakenda við fyrirlestra
- Hér er hefti sem ég skrifaði sem inniheldur nokkrar hugmyndir og aðferðir
Eyjólfur Guðmundsson said on 7. mars, 2015
Frábært
Takk fyrir þetta
Ég náði þó ekki að tengjst: Afbrigði: Að kanna væntingar þátttakenda