Kaupendur og þátttakendur í fræðslu gera æ meiri kröfur um mælanlegan árangur af fræðslustarfi. Setur það skipuleggjendur og framkvæmdaaðila í þá aðstöðu að þurfa að sýna fram á árangur af starfi sínu.
Við námsleiðina Nám fullorðinna býðst á vormisseri 2018 námskeiðið Gæðastjórnun í Símenntun:
Markmið námskeiðsins er að hjálpa þátttakendum að nýta sér helstu kenningar og aðferðir til þess annars vegar að vinna að auknum gæðum í fræðslustarfi og stýra gæðamálum og hins vegar að meta, mæla og ræða krítískt um árangur af fræðslustarfsemi fyrir fullorðna.
Á námskeiðinu munu þátttakendur setja sig inn í almennar hugmyndir um gæðastjórn, ásamt því að kanna ólíkar nálganir og aðferðir sem henta fræðslustofnunum. Þátttakendur munu læra að gera mat á mismunandi þáttum fræðslustarfs. Þeir munu læra aðferðir og orðaforða sem nýtast þeim bæði við formlegt mat og óformlegt mat á einstaka námskeiðum sem og starfsemi fræðslustofnana eða deilda. Þá verða kannaðar leiðir til að nýta niðurstöður mats til þess að bæta gæði starfsins.
Innihald: Fræðslumat sem hluti gæðastjórnunarferlis. Helstu hugmyndir og aðferðir gæðastjórnunar og mats á fræðslustarfsemi. Tekin verða greiningardæmi og raunhæf verkefni úr atvinnulífinu.
Hverjir ættu að taka þátt?
Námskeiðið hentar fólki sem vinnur við eða vill vinna við skipulagningu fræðslu og þjálfunar við ólíkar aðstæður og koma að gæða og matsvinnu í tengslum við fræðslu og þjálfun.Það hentar bæði fólki sem er í starfi og er að leita nýrra hugmynda og aukinnar hæfni sem og fólki sem hefur áhuga á að undirbúa sig fyrir slík störf. Þannig að námskeiðið ætti að henta fræðslustjórum og öðru starfsfólki fræðslu- eða mannauðsdeilda fyrirtækja og stofnana sem og framkvæmdastjórum og verkefnastjórum fræðslustofnana sem sinna fullorðnum námsmönnum einnig kennurum sem kenna fullorðnum og vilja auka hæfni sína í tengslum við gæða og matsmál.
Þetta námskeið hentar þér ef þú vilt vera í stakk búin/n til að:
- Vinna að gæðamálum á sviði fræðslu og þjálfunar innan fyrirtækja eða í fræðslustofnunum
- Meta árangur af fræðslustarfi fyrirtækja, skóla eða annarra fræðsluaðila
- Vinna að gæðaúttektum eða mati á fræðslustarfi
Fyrirkomulag námskeiðsins
Námskeiðið verður skipulagt að miklu leiti í samstarfi við þátttakendur.
Hugmyndin er að þátttakendur geti sótt námskeiðið í gegnum fjarfundabúnað, en einnig – ef áhugi er fyrir því – að safnast saman á eina eða tvær staðlotur í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í Reykjavík. Það hentar sérlega vel ef tveir eða fleiri á einum vinnustað taka námskeiðið saman því hópurinn mun hittast vikulega á vefnum í c.a. klukkustundarlangan fund. Gæðavinna sem fer fram á vinnustað getur verið hluiti af verkefnavinnu á námskeiðinu.
Námskeiðið tekur á sig form seminars, þar sem nemendur eru virkir í því að undirbúa kynningar á námsefni námskeiðsins og leiða samnemendur í námi sínu um afmarkaða þætti námskeiðsins. Þetta felur í sér að nemendur velja sér eitt af þemum námskeiðsins, lesa sig til um það og kynna það fyrir samnemendum sínum, með þeim miðlum sem við höfum til umráða á vefnum og/eða á staðlotum.
Hvenær og hvernig fer námskeiðið fram?
- Vikulegur fundur, á vefnum / á staðnum þar sem þátttakendur skiptast á að kynna og ræða afmörkuð efni.
- Staðlotur: Hafi þátttakendur áhuga munum við skipuleggja einn eða tvo vinnudaga í húsnæði Menntavísindasvið þar sem þátttakendur hittast allir á sama stað og sama tíma. Tímar verða ákveðnir með þátttakendum.
- Þátttakendur nýta sér samfélagsmiðla og miðlægt námskeiðssvæði til samvinnu milli funda
Námsmat og námskeiðslok
Námskeiðið er kennt á framhaldsstigi háskólanáms og telst 10 ECTS. Þáttakendur geta tekið þátt í námskeiðinu og fengið viðurkenningu fyrir þátttöku, en þeir sem vilja ljúka námskeiðinu þannig að þeir hljóti fyrir það einingar sem geta nýst í meistaranámi vinna nokkur verkefni sem verða metin til einkunnar. Menntavísindasvið tryggir að einingarnar nýtist upp í nám við námsbrautina „Nám fullorðinna“, sömuleiðis er mögulegt að þær nýtist sem val á öðrum námsbrautum, en það fer eftir skipulagi náms á hverri braut fyrir sig.
Skráning fer fram í gegnum UGLU fyrir háskólanema
Aðrir geta skráð sig hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Um lesefni
- Donald L. Kirkpatrick og Wendy Kayser Kirkpatrick: Kirkpatrick’s Four Levels of Training Evaluation, 2016.
- Robert F. Mager, Measuring Instructional Results, og Got a Match?. How to find out if your instructionsl objectives have been achieved. Þriðja útgáfa. Atlanta 1997.
- Jane Vella Paula Berardinelli, Jim Burrow, How Do They Know They Know: Evaluating Adult Learning 1998, Jossey Bass Higher and Adult Education Series
Umsjón námskeiðsins og nánari upplýsingar:
Hróbjartur Árnason lektor
8608046