Your site
21. desember, 2024 16:41

Mat og vottun á færni og þekkingu fullorðinna – Lýsing

matogvottun

  • Uppkast að námskeiðslýsingu: Endanleg útgáfa verður til í samvinnu við nemendur

Tilgangur námskeiðsins

Tilgangir námskeiðsins er að gera þátttakendur færa um að skipuleggja og framkvæma mat á þekkingu og færni fullorðinna með mismunandi aðferðum

 Námsmarkmið og innihald

Mat og vottun á þekkingu og færni er miðlægur þáttur í öllu skólastarfi og nauðsynlegur hluti fræðslustarfs með fullorðnum. Slíkt mat liggur meðal annars til grundvallar ýmsum réttindum á atvinnumarkaðnum. Með aukinni sókn í símenntun hafa fullorðnir námsmenn og atvinnurekendur í auknum mæli leitað eftir staðfestingu á nýrri á þekkingu og færni starfsmanna sinna. Þar að auki hafa, á undanförnum árum, æ fleiri gert kröfu um vottun á þekkingu og færni sem fullorðnir hafa aflað sér á „óformlegan“ hátt í gegnum starf sitt, tómstundir og reynslu. Einkum á þetta við þegar kemur að því að fullorðinn einstaklingur sest á skólabekk eftir margra ára hlé og vill að það sem hann hefur lært við störf sín verði metið til styttingar námstíma.

Á námskeiðinu verður tekist á við þessi málefni frá nokkrum sjónarhornum. Þátttakendur kynna sér hugmyndir, kenningar og aðferðir við námsmat og mat á raunfærni. Þeir skoða hvað tíðkast á Íslandi (og jafnvel víðar) og taka dæmi um mat. Þá kynna þátttakendur sér ákveðna þætti varðandi tengsl námsmats, námsskírteina og starfsréttinda.

Að námskeiði loknu eiga nemendur að…

  • –  geta greint frá, borið saman og nýtt sér við vinnu, helstu hugmyndir og kenningar sem tengjast mati á þekkingu og færni
  • –   geta gefið dæmi um tengsl vottana og starfsréttinda og greint hvað búi að baki þessum tengslum.
  • –   geta greint frá því hvað tíðkast varðandi mat á námi og raunfærni á Íslandi
  • –   vera færir um að skipuleggja og framkvæma námsmat á tilteknu námskeiði, bæði formlegt og óformlegt
  • –   vera færir um að skipuleggja og framkvæma mat á raunfærni ákveðins námsmanns – miðað við tilteknar forsendur
  • –   kunna nokkrar hagnýtar aðferðir til að meta námsárangur, færni og þekkingu, hvort sem hennar hefur verið aflað í formlegu námsumhverfi eða á óformlegan hátt

Inntak námsins

Vinnulag

Námskeiðið er skipulagt í blönduðu námi, það er sambland af staðbundnum lotum og fjarnámi og reglulegum fundum.

Staðlotur verða tvær, þar sem nemendur og kennarar hittast tvisvar sinnum í heilan dag. Nákvæm dagsetning er ekki komin en fyrri staðlotan verður í vikunni  14. – 18. janúar 2019 og sú seinni í vikunni 25. – 29. mars 2017

Á milli staðlotanna verða vikulegir fundir í 1 ½ tíma hvert sinn. Fundirnir fara fram í kennslustofu í Stakkahlíð og jafnframt í gegnum fjarfundakerfi.

Samvinna á netinu: Vefur námskeiðsins er miðlægur vettvangur samvinnu þátttakenda og kennara. Þar vinna þátttakendur saman að ýmsum verkefnum.

Dæmi um verkefni til námsmats

Á fyrstu fundum semja nemendur og kennarar um endanlegt fyrirkomulag námskeiðsins

  • Skýrsla um tengsl tiltekinnar vottunar við starfsréttindi 10%

Nemendur velja sér tiltekið námsskírteini eða tiltekin starfsréttindi á íslenskum vinnumarkaði og kynna sér hvað þarf til að geta orðið sér úti um viðkomandi vottun. Þá finna þau út, með lestri og viðtölum, hvað liggur að baki skírteinunum og starfsréttindunum.  Hvað þarf fólk að læra og hvernig sannar það getu sína. Hverjir ákveða hvað fólk þarf að kunna til að fá námsskírteinin eða starfsréttindin, hvernig ákveða þeir það og á hvaða hugmyndum er ákvörðun þeirra byggð.

  • Lýsing á einni tiltekinni matsaðferð í fullorðinsfræðslu 10%

Lögð er áhersla á óhefðbundnar aðferðir til að meta þekkingu og færni sem beita má jafnt í formlegu og óformlegu námi. Aðferðinni  á að lýsa eftir stöðluðu formi. Draga skal fram veikleika og styrkleika þessarar aðferðar og nefna dæmi eða sýna hvernig henni er beitt. Að lokum er verkefnum allra í hópnum safnað saman og sett í eitt hefti með inngangi (hópverkefni). Heftið nýtist nemendum í starfi til að auka fjölbreytni við val á matsaðferðum.

  • Ritgerð tengd viðfangsefninu eða skýrsla um raunhæft matsverkefni 50%

Nemendur gera 17-20 síðna ritgerð sem tekur á vel afmörkuðu viðfangsefni í tengslum við efni námskeiðsins.  Vinna við ritgerðina verður rædd í staðlotu.  Þátttakendur geta einnig skilað uppkasti og fengið samnemendur til að lesa og gagnrýna ritgerðina á staðlotunni eða í kjölfar hennar.  Reiknað er með að nemendur finni sjálfir heimildir á vefnum eða í bókasöfnum til viðbótar við það sem er bent á á námskeiðsvefnum. Í samvinnuanda er og reiknað með að nemendur komi þessum heimildum á framfæri við samnemendur með því að skrá þær í listann: Heimildir eða gagnlegar slóðir.

  • Þátttaka og virkni 15%

Námið fer fram í fjarnámi, með þremur staðlotum.  Þátttaka í umræðum og annarri samvinnu á vef sem og þátttaka í staðlotum hafa afgerandi áhrif á það hversu mikið þátttakendur fá út úr námskeiðinu, þess vegna er það metið til einkunnar. Einkum er það þátttaka í samvinnu á vefnum sem er metin.

Nemendur vinna nokkur verkefni bæði einir og í hópi og taka síðan þátt í umræðum um verkefni hvers annars. Dæmi um verkefni eru: bókarýni, lýsing á fræðimanni eða greinagerð um rannsókn. Einnig verður unnið með nýlegar upplýsingar um raunfærni, viðmið um færni og annað efni sem heimsóknir og gestafyrirlesarar leggja inn.

Hópverkefni og umræður á vef; þau birtast jafnóðum, eftir því sem námskeiðið þróast (Þessi verkefni birtast á vef námskeiðsins, og fjöldi þeirra er ekki fyrirfram ákveðinn)

Efnissöfnun á vef (Vefurinn er samvinnuvefur, ætlast er til þess að nemendur skrái bækur og vefi sem þeir finna á leiðinni, nota við ritgerðir og verkefni í þar til gerða lista á vefnum)

Þátttaka í staðlotum  (aldrei tekin beint inn í einkunn – en hefur jákvæð áhrif – aðal málið er að þið lærið eitthvað þar, og styrkið tengslin til að geta unnið betur saman á vefnum)

  • Bókarýni, greinargerð um rannsókn eða lýsing á fræðimanni. 10%

(veljið tvo af þessum þremur möguleikum)

1)   Bókarýni: Þátttakendur lesa aðra bók en þær tvær sem liggja námskeiðinu til grundvallar, gera grein fyrir innihaldi bókarinnar, og meta síðan hvernig innihaldið tengist viðfangsefni námskeiðsins og það nýtist öðrum þátttakendum,  bókarýni er skilað á sérstakt svæði á vef námsbrautarinnarsem allir geta lesið.

2)  Lýsing á fræðimanni: Hér er sagt frá fræðimanni, helstu rannsóknarsviðum hans og skrifum, framlagi hans til fullorðinsfræðslu en einkum þó til viðfangsefnis námskeiðsins.  Lýsingunni er skilað á sérstaka síðu með öðrum lýsingum á fræðimönnum.

3)   Greinargerð um rannsókn í tengslum við viðfangsefni námskeiðsins. Þetta er efni sem þátttakendur vinna sem kemur hinum þátttakendunum til góða, og einnig öðrum lesendum vefs námsbrautar um fullorðinsfræðslu.
Hér er metið hversu vel námsmaðurinn gerir grein fyrir ritinu, í mjög stuttu máli, en aðallega hvernig er bókin, fræðimaðurinn eða rannsóknin túlkuð og metin inn í samhengi námskeiðsins og samhengi fullorðinsfræðslu á Íslandi.

  • Sjálfsmat 5%

Nemendur íhuga hvað þeir hafa lært á misserinu og meta að hve miklu leiti þeir hafa náð markmiðum sínum og námskeiðsins. Skila á 1-2 bls. um það sem lærðist námskeiðinu, með persónulega mati .

 Helsta lesefni:

Norman E. Gronlund, Assessment of Student Achivement (9. útgáfa). Pearson 2006. (Reiknað er með að nemendur lesi þessa bók eða svipaða grunn bók um námsmatsfræði til grundvallar allri vinnu sinni á námskeiðinu)

Kathryn Ecclestone, Understanding Assessment and Qualifications in Post-compulsory Education: Principles, Politics and Practice, NIACE 2005. (Þessi bók tekur sérstaklega á námsmati í fullorðinsfræðslu og er því algjörlega nauðsynleg lesning)

Jane Vella, Paula Berardinelli, og Jim Burrow, How Do They Know They Know: Evaluating Adult Learning (Jossey Bass Higher and Adult Education Series). (Þessi bók er góð sem ítarefni, í lista um lesefni á vefnum eru fleirri gagnlegar bækur nefndar sem koma líka til greina. Þessi er til á bókasafni MVS)

Greinar og ítarefni á vefnum:

Mappa um raunfærnimat frá Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins


Námskeiðið er í boði annað hvert vormisseri.

Sjá lýsingu í núverandi kennsluskrá Háskólans

Það er hægt að skrá sig í gegnum Endurmenntun Háskóla Íslands án þess að vera skráður í Háskólann.