Your site
21. nóvember, 2024 06:26

Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna

Queue

Smelltu hér til að skoða samvinnuvef námskeiðsins. 

Hvernig fáum við þátttakendur á námskeiðin okkar? Hvernig skipuleggjum við námskeið eða önnur námstilboð þannig að þau höfði til þeirra sem þau eru skipulögð fyrir? Hvernig náum við til „réttu“ þátttakendanna? Hvernig er hægt að nota nýja miðla til að ná til þátttakenda?

Þessum spurningum og fleiri svipuðum munu þátttakendur leita svara við á námskeiðinu „Markaðssetning fræðslutilboða fyrir fullorðna

Bæði markaðsfræðin og kennslufræðin búa yfir kenningum, og aðferðum sem geta hjálpað stjórnendum, skipuleggjendum og kennurum að skipuleggja og kynna námstilboð þannig að þau mæti þörfum væntanlegra þátttakenda, og til þess að þeir sem hefðu gagn af því að nýta sér námstilboðin viti af þeim og geti sótt þau.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér kenningar og aðferðir markaðsfræði og kennslufræði við skipulagningu á fræðslu fyrir fullorðna, einkum við það að velja viðfangsefni, markhópa, námsform, staðsetningu og kynningu. Á námskeiðinu verður fjallað bæði um „innri“ markaðssetningu – þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar sem og markaðssetningu fyrir hinn almenna markað.

Stefnt er að því að þátttakendur muni að námskeiði loknu…

  • hugsa um fræðslustarf fyrir fullorðna frá sjónarhóli væntanlegra þátttakenda.
  • geta nýtt sér hugmyndir markaðsfræði og kennslufræði um s.k. þátttakendamiðun, og markhópamiðun við skipulagningu fræðslu.
  • kunni til verka við að útbúa markaðsáætlun fyrir tiltekin námstilboð, þjónustu eða fyrir stofnun sína sem heild.
  • geti rökstutt svo kallað val svo kallaðra söluráða fyrir tiltekið námstilboð (þætti eins og markhóp, staðsetningu, kynningu, skipulagningu námskeiðsins sjálfs, hvað þátttakendur fá út úr námskeiðinu ofl. ).
  • hafi haldgóðar hugmyndir um það hvernig megi nýta vefinn og aðra miðla í markaðsstarfi fræðslustofnunar eða deildar.

Stadlota-BW

Viðfangsefni

Á námskeiðinu verður fjallað bæði um „innri“ markaðssetningu – þ.e. innan fyrirtækis eða stofnunar- sem og „ytri“ markaðssetningu – fyrir hinn almenna markað. Til þess að ná markmiðum námskeiðsins kynna þátttakendur sér helstu hugmyndir og kenningar markaðsfræðinnar – einkum í tengslum við markaðssetningu fræðslu. Þá munu þáttakendur einnig kynnast kenningar og nálgunum úr fullorðinsfræðslunni sem tengjast svipuðum viðfangsefnum ss. „þátttakendamiðun fræðslu“ og „markhópastarf í fræðslu“ og skoða hvernig sjónarhorn markaðsfræðinnar og kennslufræðinnar tengjast og geta nýst saman. Þá kynna þátttakendur sér ýmsar hagnýtar leiðir og aðferðir við markaðssetningu námskeiða. Þátttakendur geta unnið bæði hagnýt og fræðileg verkefni og tengt þau við þær kenningar, hugmyndir og aðferðir sem þeir tileinka sér á námskeiðinu.

Fyrir hverja er námskeiðið?

Námskeiðið hentar sérlega vel öllum þeim sem þurfa eða vilja skipuleggja námstilboð fyrir fullorðna og/eða koma þeim á framfæri við mögulega þátttakendur. Það nýtist t.d. starfsfólki sem kemur að mannauðs- og fræðslumálum fyrirtækja og stofnana, stjórnendum og verkefnastjórum í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og öðru fólki sem vill koma námskeiðum sínum og öðrum námstilboðum á framfæri við væntanlega þátttakendur.

Stadlota-BWb

Vinnulag

Námskeiðið er skipulagt með blönduðu formi. Það býður fólki uppá að taka virkan þátt í námskeiðinu jafnvel þótt það búi fjarri höfuðborginni. Þannig að boðið er upp á tvær staðlotur, í sérstökum „staðlotuvikum“ við Menntavísindasvið. Þær eru í upphafi september og seinni hluta október, samtals heill dagur í hvert sinn. Þá er boðið upp á hálf-reglulega fundi sem eru annað hvort eða bæði á staðnum í húsnæði skólans við Stakkahlíð og / eða sem fjarfundir yfir vefinn.

Vinnan fer að miklu fram á vefnum einkum sérstökum námskeiðsvef námskeiðsins, þar verður mest allt námsefnið  og samvinna nemenda og kennara fer að miklu leiti fram yfir þennan vefinn og með aðstoð annarra veflægra þjónusta. Bæði á vefnum á staðlotum  og fundum fara fram umræður, fyrirlestrar, kynningar, einstaklingsverkefni og hópverkefni.

Námsmat:

Þátttakendur sem taka námskeiðið til háskólaeininga vinna nokkur einstaklings- og hópverkefni sem verða metin til einkunnar.

Lesefni

  1. Aðal bók námskeiðsins er: Kotler, P., & Fox, K. F. A. (1995). Strategic marketing for educational institutions. Prentice-Hall. (Nokkur eintök gætu verið til hjá bóksölu nema í Menntavísindasviði)
  2. Reiknað er með að þátttakendur lesi amk tvær aðrar bækur af þessum lista (Nemendur þurfa sjálfir að panta þessar bækur)
  3. Fræðilegar greinar, blogg og vefsíður sem tengjast efninu.

Skráning:

Í UGLU, hjá nemendaaskrá eða Endurmenntun Háskóla Íslands. Námskeiðið er opið fólki sem hefur lokið BA/BS/BED gráðu hvort sem það er skráð í háskólann eða ekki sjá nánar hjá EHÍ

Kennarar:

Hróbjartur Árnason, Lektor við menntavísindasvið og

Magnús Pálsson, Forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs.