Fullorðinsfræðsla, markaður og inngilding innflytjenda
Ævimenntun í íslenskri orðræðu: Stefna, inngilding og aðgengi
Hróbjartur Árnason Lektor
Háskóli Íslands, Menntavísindasvið
Ágrip /Abstract
Örar samfélagslegar breytingar einkum í tengslum við tækniþróun, fjölgun innflytjenda, áhrif gervigreindar og sjálfvirkni, hafa gert ævimenntun að miðlægu hugtaki þegar rætt er um viðbrögð samfélags og einstaklinga við áskorunum í samtímanum.
Hugmyndafræðin um ævimenntun (e. lifelong learning) kom fram á 8. áratug síðustu aldar og hefur síðan fengið miðlæga stöðu í umræðunni um nám og menntun.
Í þessu erindi eru raktar niðurstöður orðræðugreiningar á notkun hugtakanna símenntun og ævimenntun – einkum notkun þeirra í íslenskum stefnuskjölum og lögum ásamt fræði- og faggreinum á árunum 1990 – 2025. Sérstök áhersla er lögð á orðræðu sem varpar ljósi á hugmyndir í íslenskri samfélagsumræðu um aðgengi að námi og inngildingu, umfram hefðbundna áherslu á hækkun menntunarstigs og styrkingu stöðu fólks á vinnumarkaði.
Með gagnrýninni orðræðugreininginu má varpa ljósi á tækifæri og hindranir í tengslum við inngildingu í fullorðinsfræðslu og aðgengi allra. Niðurstöður benda til þess að, þrátt fyrir vaxandi áherslu á nám alla ævi, snúist framkvæmd fullorðinsfræðslu gjarnan meira um að greiða götu þeirra sem vilja ljúka formlegu námi á framhaldsskólastigi en að stuðla að námi á breiðum grundvelli, inngildingu allra í samfélagið og auknu aðgengi að námi ævilangt og ævibreitt.
Greiningin bendir til þess að það þurfi að endurmeta hvort íslensk stefnumiðun hugi nægilega að jafnræði til náms og stuðli að þátttöku allra og tryggi aðgengi að námi við hæfi.
Með dýpri skilningi á orðræðunni má leggja grunn að stefnumótun sem leggur jafna þátttöku allra í námi til grundvallar, óháð bakgrunni, aldri, menntunarstigi eða samfélagslegri stöðu
248 Milli lýðræðis- og markaðsafla: Kortlagning á valdatengslum og stofnanakerfi framhaldsfræðslunnar á Íslandi
Helgi Þorbjörn Svavarsson aðjúnkt, Berglind Rós Magnúsdóttir Prófessor
Háskóli Íslands, Menntavísindasvið
Ágrip /Abstract
Þetta erindi byggir á vinnu sem fór fram samhliða endurskoðun laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og varpar ljósi á stofnanaskipan, stjórnsýslu og fjármögnun framhaldsfræðslu á Íslandi. Markmiðið er að kortleggja núverandi stöðu kerfisins, draga fram helstu styrkleika og veikleika þess og styðja við áframhaldandi stefnumótun með áherslu á inngildingu og félagslegt réttlæti.
Greiningin byggir á vettvangshugtaki (e. field) Bourdieu og tekur mið af þremur ólíkum sjónarhornum á tilgang og áherslur framhaldsfræðslu: að efla lýðræði og félagslegt frelsi (e. democratic-emancipatory model), að styðja við nútímavæðingu (e.modernization model) eða að þjóna þörfum vinnumarkaðarins (e. human resources management models). Með þessu móti er dregið fram hvernig hagsmunaaðilar, stjórnvöld og alþjóðlegar stofnanir hafa áhrif á stefnumótun, fjármögnun og framkvæmd framhaldsfræðslu.
Frumniðurstöður benda til brotakennds stofnanakerfis og skorts á samræmdri heildarstefnu fyrir fullorðinsfræðslu á Íslandi. Takmarkað sjónsvið framhaldsfræðslunnar torveldar inngildingu og jafnan aðgang að námi. Erindið dregur jafnframt fram spennu á milli norrænna velferðargilda, sem leggja áherslu á réttlæti og félagslegt jafnrétti, og nýfrjálshyggjuáhrifa sem beina sjónum að hagkvæmni, skilvirkni og þörfum vinnumarkaðarins.
Með því að greina þessa spennu í íslensku samhengi veitir rannsóknin mikilvægan grundvöll fyrir stefnumótun sem leitast við að samræma markaðsdrifin sjónarmið við réttlát og inngildandi menntakerfi með virkni, þátttöku og jöfn tækifæri allra samfélagshópa að leiðarljósi.
270 Íslensku: Að brúa bilið: Að efla inngildingu og borgaravitund gegnum fullorðinsfræðslu meðal innflytjenda sem starfa í leikskóla
Nichole Leigh Mosty Doktorsnemi
Háskóli Íslands, Menntavísindasvið deild Menntunar og margbreytileika
Ágrip /Abstract
Þessi rannsókn kannar hlutverk fullorðinsfræðslu í að auðvelda aðlögun og inngildingu innflytjenda. Rannsóknin beinist sérstaklega að innflytjendum sem starfa í leikskólum. Árið 2023 voru 21,6%, innflytjenda starfandi í leikskóla, og af þeim var meirihluti, eða 53%, í störfum sem ekki eru skilgreind sem kennsla eða við uppeldi og menntun. Leikskólinn sjálfur hefur vel skilgreint hlutverk innan formlegra menntakerfa í að styðja við inngildingu barna og fjölskyldna innflytjenda. Evrópsk stoð um félagsleg réttindi skilgreinir rétt allra á aðgang að menntun, þjálfun og símenntun sem gerir fólki kleift að taka fullan þátt í samfélaginu og til að viðhalda og öðlast færni til að takast á við breytingar á vinnumarkaði. Markmið rannsóknarinnar er að draga fram hvernig hlutverk fullorðinsfræðslu er skilgreint í stefnum um inngildingu, sömuleiðis hlutverk leikskóla vegna inngildingar og stöðu fullorðinna innflytjenda sem starfa í leikskólum á Íslandi. Greiningin byggir á stefnuskjölum um inngildingu, tölfræði um fólksflutninga og tölfræði um innflytjendur sem starfa í leikskólum og gögnum varðandi aðlögunarvísa (e. Integration indicators).
Rannsóknin greinir vöntun á stefnu og framkvæmd inngildingar innflytjenda á Íslandi. Úrbætur á þessum sviðum geta tryggt betri árangur af inngildingu fullorðinna innflytjenda í leikskólum og fullorðinsfræðslu sem ef þeim er unnið að gætu tryggt árangur í inngildingu fullorðinna innflytjenda innan leikskóla og fullorðinsfræðslu kerfið. Að auki mun hún undirstrika að árangur inngildingar innflytjenda velti á því að takast á við kerfisbundnar hindranir og stuðla að jöfnum aðgangi að starfsþróun og tækifærum til menntunar, með árangri sem nær út fyrir leikskólageirann og hefur áhrif á félagslega samheldni, efnahagslega velmegun og almenna velferð innan innflytjendasamfélaga.
Nánari lesning og upplýsingar tengd erindunum

Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.