Your site
30. desember, 2024 16:07

Nám er félagslegt!

LearningIsSocial

DISTANS – netið (tengsla- og verkefnanet á vegum norræna tengslanetsins um fullorðinsfræðslu NVL) heldur upp á 10 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni af því horfum við um öxl og fram á veg og skoðum nokkur miðlæg þemu í vinnu okkar undanfarin ár. DISTANS hefur notað ýmsar aðferðir til að skoða nám fullorðinna og hvernig upplýsingatækni getur stutt við það, þar á meðal félagslega hlið náms.

Ætli við þekkjum það ekki öll, að þegar við viljum læra eitthvað nýtt, eða takast á við eitthvað í lífi okkar sem við viljum breyta þá leitum við gjarnan til annars fólks: Við spyrjum, við horfum, við segjum frá… ráðfærum okkur. Ómeðvitað leitum við í smiðju annarra og vonumst til að í gegnum samskiptin komumst við einu skrefi lengra. Við reiknum með að í gegnum samskiptin gerist eitthvað sem leiði til þess að við skiljum eitthvað betur, heyrum eða sjáum hvernig aðrir gera og vonumst til að geta gert eins, eða lagað það sem við sjáum eða heyrum að okkar aðstæðum.

Þegar við skipuleggjum nám fyrir aðra gerum við svipað: Við bjóðum hópi fólks saman á sama stað (eða sama vef) og bjóðum þeim upp á alls konar athafnir sem geta gefið því tækifæri til að kynnast nýjum hugmyndum, aðferðum eða leiðum og sem geta hjálpað þeim til að taka þetta nýja og finna því gagnlegan farveg í sínu lífi. Við bjóðum fólki á námskeið um kínverska matreiðslu í því augnarmiði að þátttakendur geti eldað kínverskan mat heima hjá sér að námskeiði loknu. Og bjóðum upp á námskeið í forritun til þess að þátttakendur geti forritað sjálfir. En það er ekki fyrst og fremst til að spara tíma eða pening sem við bjóðum fólki á námskeið í hópum, heldur er það vegna þess að saman lærir það betur. Það eru aukin gæði í því að læra saman. Samtal í tengslum við nám hjálpar okkur að skilja og tileinka okkur námsefnið. Við lærum af því að heyra spurningar annarra, því þeirra sjónarhorn bætir okkar upp. Þegar við sjáum annan þátttakanda prófa og jafnvel gera mistök, lærum við líka af þeim. Við lærum sömuleiðis þegar hann gerir vel. Við sjáum að einhver sem líkist okku getur náð valdi á þessu: „Þá hlýt ég að geta það líka!“

Sem sagt það eru einhver aukin gæði fólgin í því að læra með öðrum. Rannsóknir og kenningar um nám fullorðinna hafa eiginlega gengið út á lítið annað alla síðustu öld! Bestu dæmin eru kenningar um félagslegt nám og um félagslega hugsmíðahyggju. Þær lýsa hvernig nám á sér stað í félagslegu samhengi. Á grundvelli slíkra kenninga fáum við hugmyndir sem hjálpa okkur að skipuleggja félagsleg samskipti á námskeiðum og styðja þannig við nám þátttakenda.

Félagsmiðlar bjóða fólki upp á að eiga í samskiptum í gegnum tölvur. Ef nám er félagslegt hlýtur þá að liggja beint við að það sé þess virði að skoða hvernig notkun félagsmiðla getur stutt við nám fullorðinna. Margir hafa einmitt gert alls konar tilraunir með þetta undanfarin ár. Þekktast er örugglega að bjóða upp á umræðuþræði á vef í tengslum við námskeið. Sumir stofna hópa á Facebook fyrir námskeið eða bekki. DISTANS hópurinn hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum skoðað notkun félagsmiðla í námi fullorðinna. Og á ráðstefnunni „Kennum þeim að læra“ 10. desember n.k. gefst þátttakendum tækifæri til að skoða þessa hluti aðeins dýpra. Kannski vilt þú verða hluti af umræðunni þá!

Sjá dagskrá ráðstefnunnar

Skildu eftir svar