Your site
18. apríl, 2024 22:53

Um verkefnaskil

Tissue Delivery

Þegar þú skilar af þér verkefnum sem þú vinnur í tengslum við nám þitt, er sniðugt að huga aðeins að ytra formi verkefnisins, skjalaforminu og nafni skjalsins.

1) Yfirleitt sniðugt að skila skjalinu á þannig formi að aðrir eiga erfitt með að breyta skjalinu – nema að sjálfsögðu ef beðið er um að skila þeim á frumformi eins og Word eða Mindmanager formi. PDF er  viðurkennt form og sniðugt að halda sér við það, þá eru litlar likur á að nokkur breyti skjalinu eftir að þú sendir það frá þér. Flest forrit geta vistað skjöl sem PDF skjöl: Save As… og velja svo  PDF úr felli listanum „File type“. Ef sá möguleiki er ekki í boði er vert að prófa prentskipunina og velja „prentara“ sem heitir eitthvað sem inniheldur PDF, ef það vantar líka þá má sækja slíkan hugbúnað hér.

2) Í þeim tilfellum sem notkun ritvinnsluforrita og notkun gagnagrunna við meðhöndlun heimilda kemur inn í námsmat er nauðsynlegt að skila verkefninu á formi ritvinnsluforritsins, t.d. Word formi.

3) Notið viðeigandi form á skjalinu. Í háskólanámi eru nemendur að þjálfa sig í því að láta frá sér fagmannlega unnin skjöl – enda skiptir það miklu máli í atvinnulífinu.  

 • Einkunn fyrir ytra form verkefna getur numið allt að 30% af einkunn. Því er nauðsynlegt að huga að ytra formi skjalsins. Þar koma til skoðunar ytri og innri atriði eins og:
  • Uppsetning skjalsins. Þar skipta máli titilsíða, sjálfvirkt efnisyfirlit (þegar verkefnið er kaflaskipt), fyrirsagnir (notið alltaf snið/styles til að stjórna útliti fyrirsagna), blaðsíðuhaus og blaðsíðufót með blaðsíðutali, rétt form tilvísana í heimildir og heimildaskrá.
  • Stafsetning og málsfar. Það skiptir alltaf máli að skila frá sér texta sem er rétt skrifaður. Í háskólanámi er fólk að þjálfa sig í að skrifa formlega texta, því ber að sneiða hjá talmáli. Vanda orðaval og stafsetningu. Fjöldi verkfæra og gott vinnulag tryggja árangur á þessu sviði.  
 • Hluti af öllum námskeiðum við háskólann er að skila texta þar sem höfundur á í samtali við efni eftir aðra höfunda. Það sem skiptir þar máli er að vinna þín með heimildina sé gagnsæ, greinandi og gagnrýnin og að þú vísir alltaf til til heimilda þinna og gerir það á viðurkenndan hátt. Við Menntavísindasvið förum við eftir sniði Bandarísku sálfræðinga samtakanna: APA. (Sjá leiðbeininngar hjá ritverinu Það er líka eðlilegt að skrifa þannig texta að lesandinn átti sig strax á því hvaða hugmyndir þú ert að vísa í og frá hverjum OG hvað þú ert að gera með hugmyndina, hvernig þú túlkar, greinir, gagnrynir og notar hana í þínum texta.
 • Ritvinnsla er nokkuð sem tekur mikið rými í háskólanámi en líka í starfi kennara og annarra „þekkingarstarfsmanna“. Þess vegna verður ritvinnsluforrit eitt mikilvægasta verkfærið þitt: Stefndu að því að kunna á það til hlítar! Sjá t.d. leiðbeiningar hér. Slök notkun ritvinnsluhugbúnaðar kemur líka niður á einkunn.

4) Nöfn skjala greina þau hvert frá öðru. En þegar kennari fær skjöl frá fjölda nemenda um sama verkefnið fyllist jafnvel ein mappa af skjölum sem heita flest “verkefni1.docx” – þá verður erfitt að greina verkefni einstakra nemenda hvert frá öðru. Þess vegna ættir þú að venja þig á að merkja öll skjöl með nafni þínu og lýsandi texta um innihald skjalsins. Þar að auki er gagnlegt að nota enga íslenska bókstafi í nafninu. Því þeir geta oft eyðilagst þegar maður flytur skjöl á milli ólíkra kerfa. T.d. úr Apple umhverfi yfir í Windows eða af einhverju kerfi á vefnum eins og námsumsjónarkerfi yfir á Windows eða Apple tölvur. Þess vegna er rétt að koma sér upp gagnsæju kerfi fyrir nöfn á skjölum, þannig að þú og kennarinn þekkið verkefni auðveldlega í sundur. Dæmi: NafnidThitt-Namskeidsnumer-Verkefnisnafn.docx eða Hrobjartur-KEN101-SagaStarfsnams.docx 

Sem sagt 

 1. Skilið skjölum til annarra gjarnan á PDF formi
 2. Skilið verkefnum þegar við á sem ritvinnsluskjölum (*.docx) 
 3. Leggið ríka áherslu á málfar, að skrifa ritmál og að stafsetning sé í lagi.
 4. Hugið að snyrtilegu fagmannlegu formi (titilsíða, fyrirsagnir, heimildaskrá o.s.frv.) 
 5. Gefið skjölunum gagnsæ nöfn, með ENGUM íslenskum stöfum. 
  Dæmi: NafnidThitt-Namskeid-Verkefni.pdf, eða HrobjarturArnason-KEN101-Ritgerd.pdf 

Skildu eftir svar