Your site
22. janúar, 2025 00:29

„Transfer“

02510168
Fyrirtæki senda fólk gjarnan á námskeið, þegar þarf að breyta einhverju eða laga. Þegar ný tækni eða nýjar aðferðir eru innleiddar þá þykja námskeið vera leiðin til að ná fram æskilegum breytingum í viðhorfum starfsmanna og hegðun. Samt lætur árangurinn oft á sér standa! Ég hef hitt fólk sem hefur farið á nokkurra daga tölvunámskeið og svo nokkrum vikum seinna segir það „Ég lærði ekki neitt!“.

Með sögur og reynslu í þessum dúr í farteskinu er ekki ólíklegt að einhver sem hefur það hlutverk að skipuleggja nám fyrir aðra vellti fyrir sér hvar vandinn liggi og spyrji sig: „Hvernig stendur á því að fólk sem sækir námskeið eða stundar eitthvert nám, notar oft ekki það sem það lærði og hegðun þess breytist lítið eða ekkert?“

Vissulega getur verið flókið að svara þessari spurningu og ástæður þessa geta legið á mörgum stöðum.

Ef ástæðurnar liggja hjá þátttakanda námskeiðsins; námsmanninum, gæti verið að hann

  • trúi ekki eða treysti ekki því sem honum var kennt
  • vill ekki nýta sér það sem kennarinn reyndi að koma á framfæri
  • sér ekki gagnsemi eða notkunarmöguleika
  • fékk ekki fullnægjandi upplýsingar til að vita hvar hann eigi að byrja
  • hefur ekki æft nýju hegðunina [nægilega mikið] og treystir sér því ekki til að breyta öðruvísi en áður
  • hefur ekki skýra hugmynd um það hvað hann eigi að gera næst til að nýta það sem hann lærði
  • … og trúlega fleiri svipaðar ástæður mætti tína til

Ef ástæðurnar liggja í námskeiðinu gæti verið að

  • þátttakendum var ekki kynnt gagnsemi hins nýja
  • kennarinn hjálpaði þátttakendum ekki að sjá hvernig hið nýja gæti passað inn í líf þátttakenda
  • engin tækifæri voru til æfinga á námskeiðinu
  • námskeiðið var ekki skipulagt með yfirfærslu þekkingarinnar / færninnarí huga

Ef ástæðurnar liggja í aðstæðum „heima fyrir“ gæti verið að

  • á vinnustað gefst ekki tími til að æfa og prófa hina nýju hegðun
  • menning á vinnustaðnum refsar nýrri og breyttri hegðun
  • yfirmenn gefa starfsmönnum sem voru að læra eitthvað nýtt ekki tækifæri til … eða ætlast ekki til að þeir nýti það nýja sem lærðu

Þessar og margar aðrar ástæður geta legið að baki því að námsmaður breytir ekki hegðun sinni eftir að hafa „lært“ eitthvað nýtt. Fólk sem skipuleggur námsferli fyrir aðra og fólk sem leiðir fólk í gegnum alls konar námsferli gerði því vel í að velta fyrir sér hvernig sé hægt að auka líkurnar á því að námsmenn nýti það sem þeir lærðu að námsferlinu loknu.

Bjarne Wahlgren og kona hans Vibe Aarkrog hafa skrifað bók um þetta mál og hetir bókin Transfer. Hér eru slóðir í nokkra fyrirlestra og viðtöl þeirra um efnið

Í bók sinni Planning Programs for Adult Learners setur Caffarella fram módel til að skipuleggja kennslu fyrir fullorðna, þar er eitt skrefið í ferlinu einmitt að undirbúa yfirfærslu hins lærða.

Hvað dettur þér í hug að sé hægt að gera í þínum aðstæðum til að auka líkur á því að (væntanlegir) nemendur þínir nýti raunverulega það sem þú ætlar að hjálpa þeim að læra?

 

Skildu eftir svar