Gæðavottun í símenntun – Evrópska gæðamerkið (EQM)
Undanfarin ár hefur færst í vöxt að fræðslustofnanir taki upp gæðastjórnun innan sinna raða og gæðavitund í símenntun hefur aukist. Ástæða þessarar þróunar kann að tengjast því að með nýjum lögum um framhaldsfræðslu varð nauðsynlegt að taka upp og nota gæðakerfi til þess að fá viðurkenningu mennta- og menningarráðuneytisins sem fræðsluaðili á vettvangi framhaldsfræðslunnar á Íslandi. Samkvæmt lögunum þurfa gæðakerfin að vera sniðin að námi fullorðinna og nauðsynlegt er að framkvæma með kerfisbundnum hætti mat á árangri og gæðum fræðslustarfsins. Fræðsluaðilar þurfa jafnframt að birta opinberlega upplýsingar um innra gæðamat sitt og áætlanir um umbætur í kjölfar þess (Alþingi, 2010).
Útbreiddasta gæðakerfið í fullorðinsfræðslu á Íslandi er evrópska gæðamerkið – European Quality Mark (EQM). Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins (FA) hefur undanfarin ár unnið að þróun og innleiðingu á kerfisins er vottunaraðili EQM á Íslandi.
EQM gæðakerfið er afurð tveggja Evrópuverkefna sem FA tók þátt í ásamt stofnunum frá átta Evrópulöndum. Fyrra verkefnið hét ALL-accreditation of lifelong learning og markmið þess var að þróa gæðavottunarkerfi til að meta nám utan formlega skólakerfisins og meðal afurða voru gæðaviðmið og sjálfsmat fyrir fræðsluaðila. Seinna verkefnið hét RECALL – Recogniton of Quality in Lifelong Learning. Meginmarkmið RECALL var að byggja upp gæðavottunarferlið EQM og halda áfram þróun gæðaviðmiða fyrir fræðsluaðila, setja upp sjálfsmatsferli fyrir fræðsluaðila og hanna leiðbeiningar og fræðsluefni fyrir úttektaraðila (Guðfinna Harðardóttir, 2008). Á heimasíðu EQM kemur fram að nú sé unnið að endurskoðun afurða EQM í yfirstandandi NordPlus verkefni sem Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin taka þátt í (The European Quality Mark, á.á.). Það vakti athygli mína að á heimasíðu EQM www.europeanqualitymark.org var ekki hægt að nálgast leiðarvísa, matseyðublöð og svo framvegis væntanlega vegna endurskoðunarinnar.
Segja má að það að taka upp gæðastjórnun sé fyrst og fremst fólgið í að skrá og lýsa á skipulegan hátt þeim vinnuaðferðum sem viðhafðar eru og geta haft áhrif á framgang og gæði vinnunnar. Þannig verða boðleiðir skýrari og líkur aukast á því að gott verk sé unnið og þar með væntingum viðskiptavina fullnægt (Hansen, 2008). Á heimasíðu FA kemur fram að EQM er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi náms og í því felist sameiginleg gæðaviðmið fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis. EQM tekur mið af:
- gæðum þjónustunnar sem fræðsluaðili veitir,
- innri gæðastjórnun og verklagsreglum fræðsluaðila,
- hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.
Óski fræðsluaðili eftir því að EQM vottun sækir hann um hjá FA á sérstöku eyðublaði og ef umsókn er samþykkt er gerður samningur milli fræðsluaðila og FA.
Gæðavottunarferli EQM byggist bæði á sjálfsmati og eftirliti. Markmiðið með sjálfsmatinu er ýta undir samræður starfsmanna fræðsluaðila um gæðastjórnun og hvernig best sé að efla gæði starfseminnar. Vinna sjálfsmatið leiðir þannig starfsfólkið í gegnum ferli þar sem hugað er að mörgum þáttum er varða námið. Við þessa vinnu þarf meðal annars að taka tillit til markmiða, stefnu, umhverfis og inntaks fræðslu og sammælast um hvaða leiðir henta best, hvað virkar vel og hvað má betrumbæta. Í sjálfsmatinu þurfa fræðsluaðilar að safna saman upplýsingum s.s. verklagsreglur, ferli og starfsvenjur innan stofnunarinnar og eru gæðaviðmið EQM lögð til grundvallar. Afrakstur þessarar vinnu getur t.a.m. verið gæðahandbók þar sem starfsfólk hefur skráð áherslur, viðmið og ferla í tengslum við starfsemi sína (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, á.á.; Guðfinna Harðardóttir, 2013).
Að sjálfsmati loknu er kallaður til úttektaraðili sem fer yfir upplýsingarnar með fræðsluaðila og gefur góð ráð um hvernig best sé að efla gæði starfseminnar. Uppfylli fræðsluaðili þær gæðakröfur sem EQM gerir hlýtur hann EQM-vottun. Árið 2011 gerði FA samning við vottunarstofuna Standards Institution á Íslandi (BSI) um gæðavottunarúttektir og ári seinna höfðu fjórtán fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar staðist gæða úttekt og hlotið vottun samkvæmt EQM gæðamerkinu (Guðfinna Harðardóttir, 2013).
Helena Eydís Ingólfsdóttir sviðsstjóri símenntunarsviðs hjá Þekkingarneti Þingeyinga lýsir innleiðingu á EQM í grein í Gátt ársrit FA árið 2010. Þar lýsir hún því t.a.m. hversu mikilvægt það var að allir starfsmenn tóku þátt í vinnunni sem tengist gæðakerfinu og innleiðingu þess til þess að tryggja að kerfið yrði virkt í starfssemi stofnunarinnar í framhaldinu. Allir starfsmenn voru því þátttakendur í sjálfsmatinu, auk þess sem skipaður var verkefnisstjóri. Tilgangurinn var að útbúa gæðahandbók til að starfa eftir og til að tryggja rétt gæði í starfi þekkingarnetsins. Miðað er að því að sjálfsmatið verði framvegis gert árlega og í framhaldi af því sett upp úrbótaáætlun og þannig mun þetta ganga ár eftir ár (Helena Eydís Ingólfsdóttir, 2010).
Ávinningur EQM-vottuninni er margvíslegur. Í fyrsta lagi er vottunin leið fyrir fræðsluaðila til að fá viðurkenningu frá mennta- og menningaráðuneytinu sem fræðsluaðili. Í öðru lagi að mæta þörfum fyrir aukið gegnsæi og gæðavottun í símenntun og fullorðinsfræðslu. Vottunin getur þannig gagnast öllum þeim sem skipuleggja, bjóða upp á, meta og nota símenntun og fullorðinsfræðslu s.s. vinnuveitendum, fræðslusjóðum stéttarfélaga, fræðsluaðilum og ekki síst námsmönnunum sjálfum sem sækjast eftir því að þjónustan uppfylli þeirra eigin kröfur og væntingar um gæði. Í þriðja lagi fær fræðsluaðili sem hefur fengið EQM vottun leyfi til að nota EQM gæðamerkið t.a.m. kynningarefni. Síðast en ekki síst er þá er stærsti ávinningurinn aukin gæðavitund í fræðslustarfi í fullorðinsfræðslu (Guðfinna Harðardóttir, 2013).
Þrátt fyrir að EQM sé unnið í samvinnu nokkurra Evrópulanda og með styrkjum frá Evrópusambandinu er það ekki gæðakerfið sem almennt er notað meðal fullorðinsfræðsluaðila í Evrópu. Papastamatis og félagar (2009) hafa bent á að ekki hefur tekist að innleiða samræmt gæðamatskerfi fyrir fullorðinsfræðsluaðila í Evrópu og nokkur gæðakerfi eru því í notkun. Rannsóknarniðurstöður þeirra sýna að margir fullorðinsfræðsluaðilar eiga erfitt með að innleiða samræmd gæðamatskerfi í starfsemi sína, sérstaklega ef um litlar stofnanir er að ræða.
Markmið EQM virðist vera að þjóna bæði stórum og smáum fræðsluaðilum og virðist kerfið hannað með það að markmiðið að sem flestir geti tekið það upp. Guðfinna Harðardóttir minnist á þetta í grein árið 2008 og tekur fram að EQM-vottunarferlinu sé ekki ætlað að sníða fræðsluaðilum þröngan stakk með ítarlegum og ósveigjanlegum viðmiðum.
EQM kann því að bjóða upp á meira svigrúm en t.a.m. ISO 9001 gæðastaðalinn sem stærri fræðslustofnanir líkt og Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Kópavogi og fleiri hafa tekið upp.
Nemendur og kennari í námskeiði um gæðastjórnun í símenntun vorið 2014 skrifuðu grein í Gátt – ársrit FA, þar sem fjallað var um hvaða ávinning kennarar og verkefnastjórar hefðu haft af EQM gæðavottuninni og tóku viðtöl við átta aðila í því skyni. Viðmælendur gáfu til kynna hvaða áhrif starfið við skráningu ferla, sjálfsmat og gæðavottun hafði á vinnustaðinn og voru m.a. sammála um að skipulag væri betra, verkferlar og skráning væri skýrari, kennsla og undirbúningur væri skilvirkari. Það sem vakti sérstaklega athygli var að kennurum fannst kennslan sjálf ekki endilega hafa breyst. Þ.e. gæðastarfið hafði leitt til ýmissa áþreifanlegra umbóta í starfi fræðslustofnanna en ekki á þeirra eigin kennslu og því virðist sem gæðastjórnunin nái einungis að þröskuldi kennslustofunnar. Niðurstaða greinahöfunda er því að þar sem nám og gæði í námi sé í raun byggð á samvinnu nemanda, kennara og fræðsluaðila sé full ástæða til að skoða hvernig fræðslustofnanir geta stutt kennara sína til þess að að skapa rými til að styðja við ábyrgð og virkni þátttakenda í námi sínu (Hróbjartur Árnason og fl. 2014).
Það að gæðastjórnunin nái aðeins að þröskuldi kennslustofunnar kom jafnframt fram í ytri úttekt sem gerð var á Menntaskólanum í Kópavogi, en þar er ISO 9001 gæðastaðalinn notaður. Í úttektinni segir um þetta atriði: Áhersla er lögð á að gæðakerfið sé fyrst og fremst umbótamiðað og það nái aðeins að þröskuldi kennslustofunnar. Innan hennar hefur hver kennari algerlega óskert faglegt sjálfstæði og frelsi til þess að ná settum markmiðum eftir þeim leiðum sem hann telur réttastar (Bragi Guðmundsson & Trausti Þorsteinsson, 2012, bls 36).
Svo virðist sem EQM líkt og ISO 9001 miði fyrst og fremst að gæðum varðandi skipulagningu, umgjörð og aðstöðu til náms. Til samanburðar má nefna gæðakerfið LQM sem er útbreiddasta gæðakerfið í Þýskalandi og Austurríki (Learner-Oriented Quality Certification for Further Education Organisations). LQM hefur það að markmiði að skoða sérstaklega gæði í náminu sjálfu og áhrif fræðslu og þjálfunar á námsmennina sjálfa. Í LQM gæðakerfinu er talið ráðlegt að gera greinamun á gæðum námsins og gæðum aðstæðna til náms eða skipulag námsins. Þetta er talið skipta máli þar sem fræðslustofnanir geta bara útvegað verkfærin til náms en námið sjálft verður alltaf ferli sem ákvarðað er af námsmanninum. Þannig er nauðsynlegt að þróun gæða í fræðslustofnun byggist á því að skoða hvað er árangursrík nám fyrir námsmenn og byggir LQW gæðakerfið því mest á ígrundun og minna á verkferlum (Zech, 2007).
Tilkoma aukinnar gæðavinnu hjá fræðsluaðilum í fullorðinsfræðslu undanfarin ár er sannarlega jákvæð þróun og sem eykur líkur á faglegum vinnubrögðum, góðri skipulagningu og reglulegu mati á starfi fræðsluaðila. Gæðakerfið EQM hefur nýst mörgum í þessari vinnu og nú er unnið að endurskoðun þess. Áhugavert verður að sjá hvort sú endurskoðun leiði til þess að fleiri þættir í starfi fræðslustofnana verði skoðaðir og að gæðavinnan nái lengra, t.a.m. alla leið inn í kennslustofuna.
Heimildir:
Alþingi. Lög um framhaldsfræðslu (2010). 138. löggjafarþing. Sótt af: http://www.althingi.is/altext/stjt/2010.027.html
Bragi Guðmundsson, & Trausti Þorsteinsson. (2012). Menntaskólinn í Kópavogi Úttekt á starfsemi unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Akureyri
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. (n.d.). Fræðsluaðilar með EQM vottun – Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Sótt af: http://www.frae.is/gaedavottun/fraedsluadilar-med-eqm-vottun/
Guðfinna Harðardóttir. (2013). Gæði og aftur gæði. Um innleiðing EQM gæðavottunar á Íslandi og hugmyndir að áframhaldandi þróun gæðaviðmiða. Gátt, Ársrit um fullorðinsfræðslu, 66–69.
Helena Eydís Ingólfsdóttir. (2010). EQM og gæði í símenntun. Gátt – Ársrit um fullorðinsfræðslu, 93-94.
Hróbjartur Árnason, Áslaug Bára Loftsdóttir, Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, Kristín Þórarinsdóttir, & Særún Rósa Ástþórsdóttir. (2014). Gæðanám. Gátt, Ársrit Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins, 37–46.
Papastamatis, Ad., Valkanos, Ef., Zafiris, G.K. & Panitsidou, E. (2009). Inherent contradictions in managing quality of adult education: A qualitative analysis of reports on policies and systems in European countries (pp. 435–442). Thessaloniki: University og Macedonia.
The European Quality Mark. (n.d.). The European Quality Mark – Home. Sótt af: http://www.europeanqualitymark.org/home/index.html
Zech, R. (2007). Learner-Oriented Quality Development for Further Education. Hannover: ArtSet Forschung Bildung Beratung GmbH.
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.