Your site
29. mars, 2024 05:18

Fjarmenntabúðir: Stuðningur háskóla við skólastarf

RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun: Sólveig Jakobsdóttir stýrir málstofunni

Þetta er þriðja málstofan á Menntakviku 2020 sem kjörsviðið Nám fullorðinna kemur að.

Í vor stóðu kennarar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Kennaradeild Háskólans á Akureyri að fjarmenntabúðum. Þær voru skipulagðar fyrir kennara, stjórnendur og starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Menntabúðirnar voru haldnar í samvinnu við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Menntamálastofnun, Kennarasamband Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Menntamiðju.

Á þessari málstofu verður tilraunin kynnt ásamt niðurstöðum fyrstu rannsókna á framkvæmdinni. Í lok þeirra gefst tækifæri til að ræða um erindin og velta fyrir sér möguleikum þessa forms í starfsþróun almennt.

Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni föstudaginn 2. október kl. 15:30 til 17:00

Fjarmenntabúðir í starfsþróun kennara: Viðhorf og reynsla þátttakenda

Sólveig Jakobsdóttir, prófessor, MVS, HÍ

Á undanförnum áratug hafa menntabúðir náð fótfestu hérlendis sem góð leið í starfsþróun kennara. Menntabúðir eru óformlegir viðburðir þar sem fólk kemur saman til að kenna hvert öðru t.d. á nýja tækni, forrit, tæki og tól. Þátttakendur skiptast á að vera í kennara- eða nemendahlutverki og áhersla er á jafningjafræðslu og tengslamyndun. Vorið 2020 skipulagði starfsfólk við Menntavísindasvið HÍ og Kennaradeild HA þrjá viðburði af þessu tagi á netinu (fjarmenntabúðir) í samvinnu við fleiri aðila.  Áhersla var á að kynna möguleika og tæknilausnir í fjar- og netnámi  fyrir skólafólk á vettvangi sem stóð frammi fyrir lokunum skóla eða takmörkunum á venjulegu skólahaldi vegna COVID-19 faraldursins. Í þessu erindi verður fjallað um viðhorf og reynslu þátttakenda sem tóku þátt í umræðu um þessa tegund starfsþróunar í lok hverra búða og svara könnun um reynslu sína. Um helmingur til þriðjungur þátttakenda svaraði: 57 svör bárust frá þátttakendum í búðum 1, 70 úr búðum 2 og 21 úr búðum 3. Meirihluti hafði mikla eða töluverða reynslu af menntabúðum á stað. Flestir tengdust grunnskólum en aðrir framhaldsskólum, leikskólum, háskólum eða fullorðinsfræðslu. Flestir svarendur sögðu að búðirnar hefðu gagnast sér vel (74-90%) eða töluvert (10-24%). Nær öllum svarendum líkaði mjög vel (68%-86%) eða vel (14-33%) við þetta form starfsþróunar. Langflestir töldu líklegt að þeir vildu nýta sér starfsþróun af þessum toga í framtíðinni og allmargir höfðu áhuga sjálfir á að skipuleggja búðir af þessum toga. Í opnum spurningum kom fram ánægja frá landsbyggðarfólki með þetta form sem væri óháð staðsetningu. Reynslan lofar góðu varðandi nýtingu starfsþróunar af þessum toga.

Hvaða form og skipulag er heppilegt fyrir fjarmenntabúðir – gátlisti

Salvör Gissurardóttir, lektor, MVS, HÍ og Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt, HA

Haldnar voru þrjár fjarmenntabúðir í sex Zoom fjarkennslurýmum vorið 2020. Samtals voru 51 innlegg sem flest voru tekin upp. Lítil sem engin reynsla er af menntabúðum á neti en þær eru mögulega frábrugðnar netráðstefnum vegna áherslu á jafningjafræðslu og samskipti. Beitt var hönnunarmiðaðri nálgun (educational design research) til að meta hvað virkaði ekki sem skyldi við framkvæmd fjarmenntabúða og hverju var breytt milli búða. Í erindinu verður fjallað um framkvæmd búðanna og lýst verkfærum og mannskap sem vann að þeim, skoðað hvernig var kallað eftir innleggjum, þau skráð, hvernig búðirnar voru auglýstar á og hvernig afrakstri var komið á framfæri. Lýst verður hvernig búðirnar fóru fram og hvernig efni var kynnt. Innlegg voru greind í fjóra flokka: Kynningar sem tengjast stofnunum og verkefnum þeirra; Skjákynningar og sýningar á verkfærum; Kynningar á þróunarverkefnum þar sem ferli er lýst og prófun með nemendum; Umræður og hugflæði. Fremur mörg innlegg voru á vegum stofnana en fremur fá voru kynning kennara á þróunarverkefnum þar sem ferli með nemendum var lýst. Virkni þátttakenda gat verið mikil í kynningum í öllum fjórum flokkunum en var með ólíkum hætti eftir því hvers eðlis innlegg var og  byggðist  á hvernig kynnendur lögðu upp innlegg, undirbúningi og hvernig tæknileg umgjörð var. Því eru niðurstöður settar fram sem gátlisti sem styðjast má við til að skipuleggja fjarmenntabúðir við sams konar aðstæður þar sem tilgangur er að stuðla að starfsþróun og virkni. Gátlistinn getur nýst við framkvæmd fjarmenntabúða fyrir þá sem vilja prófa slíkt form á starfsþróun og samvinnu.

Vefur: sites.google.com/view/fjarmenntabudir.

Hringborð/vinnustofa um fjarmenntabúðir

Hróbjartur Árnason, lektor, MVS, HÍ

Starfshópur um fjarmenntabúðir mun halda fleiri menntabúðir á netinu á skólaárinu 2020-2021. Starfshópurinn fékk  styrk frá HÍ sumarið 2020  til þess að þróa námsformið fjarmenntabúðir áfram. Styrkurinn er veittur úr sérstökum sjóði til stuðnings við samfélagsvirkni akademísks starfsfólks.  Í þessum hringborðsumræðum/vinnustofu gefst tækifæri til að spyrja og ræða um skipulag og framkvæmd fjarmenntabúðanna, reynslu skipuleggjenda og lærdóm. Sömuleiðis geta þátttakendur komið á framfæri  eigin hugmyndum og reynslu. Þeir geta rætt um skipulag fjarmenntabúða með tillitii til ýmissa þátta svo sem: kennslufræði, tæknilegs umhverfis; þjálfunar og færni stjórnenda, kynnenda, þátttakenda; kynninga og auglýsinga; kostnaðar; ytri umgjarðar (lög, öryggismál, friðhelgi); og skráningu innleggja. Lifandi umræða um fjarmenntabúðir er hluti af því þróa þetta námsform.

Hvernig tekur þú þátt?

Smelltu á slóðinni til að taka þátt í tölvu eða snjalltæki. Ef þú notar snjallsíma eða spjaldtölvu þarftu að setja fyrst upp Zoom appið í app store eða Play store. Hægt er að taka þátt með virkum hætti í textaspjalli og einnig með hljóð/myndspjalli – við reiknum með líflegum umræðum. Best ef fólk kemur inn á fund (í upphafi) með slökkt á hljóði og myndavél. Neðst í glugga fundarherbergisins eru myndtákn fyrir myndavél og hljóðnema. Vinsamlega kveikið þar á myndavél og hlóðnema þegar við á. Góð regla að endurræsa tölvu fyrir þátttöku.

Smelltu hér til að taka þátt á málstofunni föstudaginn 2. október kl. 15:30 til 17:00

Málstofurnar sem kjörsviðið Nám fullorðinna kemur að eru:

Skildu eftir svar