Your site
29. mars, 2024 13:33

Nám fullorðinna og dreifbýlið…

Rural-small

Frá og með iðnbyltingunni hefur straumur fólks legið frá dreifbýli til þéttbýlis, frá þorpum til borga. Byggðarlög sem áður héldu lifinu í hundruðum manna eru að verða auð og þorp sem iðuðu af mannlífi sem draugaþorp, þar sem enginn vill búa lengur! Margir hafa reynt að spyrna við fótum og samfélagið sem heild virðist almennt hafa verið sammála um að það sé full ástæða til að „styðja við“ landsbyggðina með ýmsu móti. Hefðbundin leið á Íslandi hefur verið að reyna að fjölga atvinnutækifærum, draumurinn um stóriðju er þekktur… Önnur leið hefur sem menn grípa gjarnan til hefur verið að auðvelda aðgang að menntun. Þar hefur fjarkennsla þótt vera lausn sem gæti brúað landfræðilegar fjarlægðir.
Vinna mín við 2ja ára verkefni með DISTANS netinu þótti mér leiða í ljós að vissulega gæti fjarkennsla og fjarnám gert fólki kleift að stunda nám á landsbyggðinni án þess að flytja til borgarinnar. En það er samt ekki víst að jafnvel þótt ákveðinn fjöldi fólks geti aukið menntun sína í heimabyggð leiði til þess að fleiri velji að búa þar. Rannsóknir Önnu Guðrúnar Edvardsdóttur leiddu m.a. í ljós að lífsgæði sem fólk sækist eftir hafi mikil áhrif á upplifaðan lífvænleika í tiltekinni byggð. Bæði hennar rannsóknir og reynsla og ranusóknir verkefnastjora fjarnáms við háskólann í Tromsö benda t.d. til þess að oft og tíðum nái fjarnemar ekki að tengja námsefnið við veruleika sinn í dreifbýlinu, hún segir oft erfiðara að stuðla að dýpra námi (danning) í gegnum fjarnámið. Gjarnan læri fjarnemar námsefnið utanað í stað þess að tengja það og nýta í sínum veruleika. Nánari eftirgrennslan leiðir í ljós að hið gagnstæða þekkist líka. Þuríður Jóhannsdóttir komst að þeirri niðurstöðu í doktorsrannsókn sinni að fjarnemar sem stunduðu vinnu við það sama og þeir voru að læra náðu einmitt mjög vel að tengja námsefnið við veruleika sinn. Það sem ég tók með mér úr öllum þeim samtölum sem við áttum við fólk á sex ólíkum dreifbýlisstöðum á norðurlöndunum var að til þess að fjarnám nýttist fólki sem býr í dreifbýli þurfi kennslan að vera þannig að þátttakendur læra að nota þau tæki og tól sem upplýsingatæknin bjóði til að tengjast öðrum og gera lífið lífvænlegra og til að auka lífsgæði sín. Fólk sem býr í fámenni, verður fyrir minna áreiti af nýjum hugmyndum og getur jafnvel sjaldan átt í áhugaverðum samskiptum í kring um viðfangsefni sem það er að læra um eða hefur sérstakan áhuga á. Frumulíffræðingurinn á Vestfjörðum hefur e.t.v. ekki marga til að ræða við um viðfangsefni sín dags daglega. Smiðurinn í Vík sem hefur sérstakan áhuga á því að safna kínverskum tóbakskrúsum hefur örugglega fáa til að ræða áhugamál sitt þar. En kunni þessir menn að nýta sér netið og að taka þátt með frumkvæði og ábyrgð í alls konar samfélögum á netinu geta þeir fengið útrás fyrir áhugamál sín og haldið sér við í tengslum við starf í gegnum alls konar samskipti sem tölvurnar bjóða uppá, þannig að það sem dreifbýlið hefur uppá að bjóða dugar til að veita þeim þau lífsgæði sem uppá vantar.

Fjarkennarar sem sinna nemendum sem búa í dreifbýli ætti því að hugleiða alvarlega hvort það sé ekki nauðsynlegur hluti starfsins og þjónustunnar við fjarnema að útbúa verkefni sem hjálpa þátttakendum að tengja námsefnið við veruleikann í dreifbýlinu og sem leiða þá til aukinnar færni í því að nota internetið til að dýpka tengsl sín við fólk sem deilir sömu áhugamálum.

2 responses to Nám fullorðinna og dreifbýlið…

  1. Mjög áhugavert viðfangsefni. „Aldrei fór ég suður“ syndrómið á landsbyggðinni byggir á ótrúlega mörgum þáttum og er afskaplega varhugaverð þróun. Vestmannaeyjar ættu t.d. vissulega að vera í áhættuhóp hvað þetta varðar. Sú staða að aflaheimildir hafa ekki minnkað hér skipta að mínu mati algjöru höfuðmáli. Breytt vinnubrögð innan sjávarútvegsins, fullnýting afurða og aukin tæknivæðing skapa nú ótrúlega mörg sérhæfð störf sem krefjast mikillar og fjölbreyttrar menntunar. Þegar atvinnuumhverfið er orðið fjölbreytt eru mun meiri líkur á að fá fólk til vinnu. Ástæðan er sú að þá er líklegra að makinn fái einnig vinnu við hæfi. Opinber störf utan lögbundinnar þjónustu hafa nánast horfið en á móti kemur að einkaframtakið hefur styrkst. Undirliggjandi er þó áhættan sem skapast af því að hafa öll eggin í sömu körfunni. Ef sjávarútvegurinn hrynur þá hrynur allt annað.

  2. Mér verður hugsað til þess starfs sem fer fram á símenntunarmiðstöðvum um allt land. Þar er rekið öflugt fjarnám ásamt því að þar býðst nemendum að læra í námsverum og taka próf. Varðandi viðfangsefnið hér að ofan og með hliðsjón af kenningum um reynslu og nám fullorðinna tek ég undir þessar vangaveltur þínar Hróbjartur að kennarar í fjarnámi ættu að finna leiðir til að láta nemendur vinna verkefni sem stuðla að því að þeir tengja námsefnið við sinn veruleika.

Skildu eftir svar