Your site
28. mars, 2024 18:31

Hlutverk fullorðinsfræðara i samfélaginu

horft yfir Hafnarfjörð...

Hvað sérð þú þegar þú horfir yfir þitt bæjarfélag, sveitafélag eða samfélag sem þér hefur verið trúað fyrir sem fullorðinsfræðari?

Þegar við hugsum um skipulagningu náms fyrir aðra þá spáum við gjarnan í ferlið sem fer af stað þegar við höfum ákveðið að það sé þörf fyrir ákeðið námsferli fyrir tiltekinn hóp. Það kemur í ljós að hópur starfsmanna muni þurfa að breyta vinnulagi sínu vegna breytinga eða nýunga í tölvukerfi, lagaumhverfi eða markmiðum stofnunarinnar. Aukn neysla geðlyfja bendir til andlegra vandamála í samfélaginu og því er ákveðið að bjóða upp á nám og stuðning sem getur bætt andlega líðan fólks… o.s.frv.

En hvað gerist á undan???

Ef við leyfum okkur að líta á fullorðinsfræðara (í hvaða hlutverkum sem þær kunna að vera) sem leiðtoga þá er það líka þeirra hlutverk að fylgjast með samfélagi sínu; spyrja sig hvað er að gerast, hvar kreppir skóinn… hvert stefnir ??? og spá á hvaða hátt þeirra starf, stofnun gæti eða ætti að koma að með stuðning við nám og lærdóm.

Það gæti þurft að kalla saman hagsmunaaðila til að skoða málið / „vandann“  / viðfangsefnið. Það gæti verið gagnlegt að byrja að blogga um efnið og sjá hver viðbrögðin verða, eða bjóða upp á morgunverðarfund eða opna umræðufundi… Fyrirtæki, stofnanir, símenntunarmiðstöðvar eða fræðsludeildir fyrirtækja, stofnana, stéttarfélaga sem hafa tekið að sér það stuðla að og styðja við nám og þroska skjólstæðinga sinna gerðu vel í að ákveða á hvaða hátt þau geta innt af hendi hlutverk sitt sem leiðtogar og prófa sig áfram með alls konar aðferðum til að hjálpa þeim sem þau vinna með til að læra, þroskast og komast lengra hvað það mál snertir sem blasir við.

Til þess að svo geti verið þarf vissulega umboðið að vera skyrt og þeir sem hafa umboðið þurfa að kunna til verka og hafa tæki, tól, samhengi og sambönd sem nýtast til þess að koma góðum hlutum af stað.

Ég rakst (með hjálp nemanda við námsleiðina) á stofnun sem hefur sett svona hluti í ferli og ætlar ÖLLUM starfsmönnum að taka þátt í formlegum starfshópum sem hafa það hlutverk að skanna samfélagið, umræðuna og annað sem er að gerast með spurninguna á lofti: „Er eitthvað að gerast á þessu sviði…“ eða „Eru greinilegar námsþarfir að opinberast…. sem kalla á að við bjóðum okkar þjónustu til að gera tiltekið mál að umræðuefni á einhvern hátt eða að styðja við nám á annan hátt?“

Starfsfólkinu er sem sagt skipt niður í 10 þematíska starfshópa sem fylgjast hver með sínu sviði og eiga reglulega að koma upp með frumkvæði (progam) á sínu sviði sem þeir bjóða samfélaginu. Á vef stofnunarinnar liggja frammi leiðbeiningar og eyðublöð sem styðja við þessa vinnu.

Sjá á  vef North Dakota State University

Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér hvort fyrirtæki, stofnun eða deild sem hefur  aðgang að faglegum sérfræðingum og fólki sem kann að skipuleggja námsferla fyrir fullorðna ætti ekki að hafa allt sem þarf til þess að svara, á einhvern uppbyggilegan hátt, samfélagslegum þörfum sem blasa þeim við eða sem eru að koma fram. Mér finnst full ástæða að við veltum fyrir okkur hvaða ábyrgð fræðsludeild, símenntunarmiðstöð, háskóli og aðrir fræðsluaðilar hafa til að vinna á forvirkan hátt að heill samfélagsins með því að eiga frumkvæði að alls konar menntandi uppátækjum sem fá samborgara okkar til að hugsa um mikilvæg mál og eða styðja við þá þegar nýjar óvæntar spurningar og áskoranir knýja dyra.

Þekking á aðferðum þarfagreiningar og á ólíkum leiðum til að skipuuleggja alls konar nám og námsferla fyrir fullorðna hljóta að koma að góðum notum við slíka iðju.

4 responses to Hlutverk fullorðinsfræðara i samfélaginu

  1. Í gær var ég starfsmannafundi á leikskólanum og þangað kom kona frá Símenntun. Hún var að kynna vinnu sem Grundarfjarðarbær er að fara af stað með. Það voru fengnir 3 starfsmenn frá leikskólanum til að vinna með henni, aðstoðarleikskólastjóri, matráður og leiðbeinandi. Hún sendir til okkar könnun á líðan og fleiru tengt vinnunni sem hún vinnur úr og svo í samráði við þessar 3 og allan hópinn verður farið af stað með að finna námskeið og fleira sem fólki langar að vinna að. Mér finnst þetta mjög þarft og gott að vinna þessa vinnu. Því að þó að við fáum bækling frá Símenntun til okkar þá er ekki þar með sagt að hann nýtist okkur, t.d. á leikskólanum. Persónulega sé ég oft námskeið sem væri gaman að fara á, en ég sleppi því af því að ég þarf að taka frí úr vinnu og fara jafnvel til Rvíkur til að sækja námskeiðið.

    • Einmitt Anna, þarna er um að ræða frumkvæði símenntunarmiðstöðvarinnar, þau senda fulltrúa sinn í heimsókn til að kanna hvaða námsþarfir séu á staðnum og bjóða svo uppá að skipuleggja námsferli sem henta þessum starfsmannahópi. Mjög fagleg vinna 😉

  2. Skemmtilegt að skoða þjónustuna sem NDSU Extension Service í norður Dakota býður uppá og mikið þykir mér faglega unnið að þessu. Þessi tíu þemu eru spennandi og þeir sem hafa áhuga á að bæta við þekkingu sína ættu auðveldlega að finna eitthvað við sitt hæfi.
    Maður sér að þarna fer af stað ákveðin þarfagreining til þess að skoða og meta þarfir viðskiptavinarins. Þetta er eitthvað sem íslenskir menntunarfræðingar gætu vel tekið að sér, já og í samráði við aðra sérfræðinga.
    Hróbjartur veltir upp „hvort fyrirtæki, stofnun eða deild sem hefur aðgang að faglegum sérfræðingum og fólki sem kann að skipuleggja námsferla fyrir fullorðna ætti ekki að hafa allt sem þarf til þess að svara, á einhvern uppbyggilega hátt, samfélagslegum þörfum sem blasa við eða sem eru að koma fram.“ Mér finnst þetta réttmæt pæling og virkilega þörf á sama tíma. Þó ég sjálf vinni eða réttara sagt kenni í símenntunarstöð þá er ég ekki beinlínis í stöðu sem hefur að gera með forvirka þáttinn þ.e.a.s að skoða HVAR þörfin fyrir skipulagða námsferla er mest þörf. Síðasta árið hef ég þó oft velt því fyrir mér hvort það væri ekki ferlega gagnlegt að fara í ákveðin fyrirtæki t.d. til að meta þörfina eins og fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga. Forvirki þátturinn er jú svo mikilvægur fyrir heill samfélagsins í heild sinni. Þá kemur samt á móti (því miður) að vinnuveitendur eru ekki alltaf jafn spenntir að hleypa fólkinu sínu á námskeið t.d. að morgni til hádegis. Fólkið á að læra íslensku, samlagast og allt það EN tíminn sem þyrfti að fara í námið er breyta sem ekki er reiknað með… Já, það getur verið vandlifað.
    Það er jákvætt að hugsa um mikilvæg menntamál og við viljum geta stutt við menntandi uppátæki þegar nýjar og óvæntar spurningar og áskorarnir knýja dyra. Ég persónulega leiði oft hugann að flóttamannastraumnum og þeirri staðreynd að á næstu árum tökum við á móti samtals 500 manns frá Sýrlandi. Þá verður þörf á aðferðum þarfagreiningar og ólíkum leiðum til að skipuleggja alls konar nám og námsferla, bæði fyrir kennara/leiðbeinendur og nýja Íslendinga.

    Anna! Mjög flott starf hjá Grundarfjarðarbæ. Það er nefnilega mikill munur eins og þú segir að fá manneskju sem kemur til að kynna starfið heldur en að lesa bækling. Fagleg hópavinna eins og þessi skilar án efa betri árangri til fleira fólks. Þarna er allavega áhugi ykkar skoðaður og útfrá honum metið hverning námskeið er þarft að halda. Gaman að heyra af þessu.

  3. Já ég er mjög spennt að sjá hvað kemur út úr þessari vinnu:-)

Skildu eftir svar