Your site
19. apríl, 2024 13:57

Fjórar tegundir náms

learn

Það eru til margar leiðir til að skoða nám og flokka það. Ein leið sem mér finnst sérlega gagnleg var upprunalega sett fram af Piaget. Ég rakst á hana í bók eftir Knud lleris, en þar byggir habnn á túlkun Nissin á Piaget. Hér á eftir er stutt umorðun mín á aðalatriðunum úr þessum kafla:

 

Upprrunaleg flokkun Piaget

1) Uppsöfnun  (Cumulative learning)

Nám í formi uppsöfnunar (cumulative learning) á sér stað þegar við lærum eitthvað nýtt, það verður til nýtt hugsanamynstur. Stundum eru það nýjar upplýsingar um eitthvað sem við þekkjum ekki, en stundum getur það átt við um eitthvað sem við lærum ómeðvitað í gegnum reynslu saman ber hundinn hans Pavlovs, við lærum t.d. fljótt að tala lágt í kirkju, en það er ekki víst að nokkur hafi sagt okkur það, við lærðum það jafnvel ómeðvitað af því hvernig aðrir hegða sér.

2) Samlögun (Assimilative learning)

Við notum hugtakið samlögun um nám þegar áreiti úr umhverfinu er tekið og því bætt við hugsanamynstur sem við búum þegar yfir. Einhver sem hefur lært að leggja saman tölur lærir við að draga frá, eða við lærum að hægrismella á mús og þannig kalla fram aðgerðir sem tengjst því samhengi sem maður er að vinna í hverju sinni o.s.frv. Þetta er trúlega algengasta myndin sem nám tekur á sig. Og við þekkjum mörg vel úr fullyrðingu Ausubel frá 1968: „Það sem hefur mest áhrif á nám og námsárangur er það sem nemandinn veit fyrir.“

3) Aðhæfing (Accommodative learning)

Aðhæfing í námi á sér stað þegar einstaklingur (eða hópur) þarf að endurvinna hugsanamynstur sem eru til staðar. Slíkt getur gerst t.d. þegar maður verður var við eitthvað í umhverfi sínu sem er ekki í samræmi við það sem maður átti von á. Þú horfir á hlut og það tekur þig nokkurn tíma að sjá formið og ákveða hvað þetta er. Táknmál og handahreyfingar í ókunnugu landi sem hafa aðra merkingu en maður átti upphaflega von á.

  • Aðhæfing getur þannig falið í sér að maður þurfi að brjóta hugsana mynstur – eða það sem maður upplifir – niður í minni einingar og raða upp á nýtt og búa til ný hugsanamynstur.
  • Aðhæfung getur átt sér stað á svipstundu, eða hún getur verið langt og strangt ferli þar sem einstaklingur fær smám saman skilning eða nær smám saman valdi á nýjum kringumstæðum.

Illeris segir að aðhæfing sé nátengd hugtökum eins og ígrundun og gagnýninni hugsun og að aðhæfing sé sú tegund náms sem liggur til grundvallar hugtökum eins og hæfni.

Fjórða tegund náms, byggir á hugmynum annarra

Aðrir hafa síðan bætt við lýsingum á námi sem passa ekki undir þessa þrjá flokka, en eru beint framhald af þeim. Illeris bætir því við þeim fjórða:

4) Umbreytingarnám (Transformative Learning)

Umbreyting, umbreytingarnám (Tranformative learning) er hugtak sem Illeris velur að nota sem samheiti yfir form eða tegund náms sem hafa verið nokkuð mikið í umræðunni undanfarin 20 ár og gengur skrefinu lengra eða dýpra en aðhæfing. Umbreytingarnám á sér þá stað þegar einstaklingur þarf að breyta mörgum hugsanamynstrum á sama tíma.

Illeris tengir umbreytingarnám við það sem Carl Rogers skrifaði um um miðja síðustu öld og kallaði „significant learning„, merkingarbært nám og lýsir námi sem á sér stað þegar einstaklingur þarf að takast á við að hugmyndir hans um lífið og tilveruna duga ekki til að takast á við þann veruleika sem hann upplifir. Rogers talaði gjarnan um að slíkt nám væri sársaukafult og að fók sneiddi hjá því í lengstu lög. Illeris bendir á að síðan Rogers var að skrifa breytist samfélagið mun hraðar en áður og því lendi fólk í því mun oftar en áður að þurfa að læra að bregðast við umhverfi sínu á nýjan hátt. Þetta er áberandi í allri umræðu um nám og menntun undanfarin 20 ár, og Illeris nefnir þrjú hugtök sem eru af sama meiði. Það fyrsta má finna hjá finnanum Yrjö Engström í kenningu hans um „Expansive learning“ eða víkkað nám. Það næsta hjá þjóðverjanum Peter Alheit: „transitory learning“ um nám sem tengist því að fara frá einu stigi lífsins yfir á annað, t.d.: að verða móðir, skipta um starf, missa maka o.s.frv. Og það þriðja hjá bandraríkjamanninn Jack Mesirow sem kynnti hugtakið „transformative learning„, umbreytinganám, um það ferli sem fólk fer í gegnum þegar það þarf að breyta gömlum sjálfvirkum hugsanamynstrum þannig að þau verða sveigjanlegri, nákvæmari, opnari og þannig að það sé auðveldara að breyta þeim.

 

 

 

1 response to Fjórar tegundir náms

  1. Sæl öll.

    Virkilega áhugavert að rifja upp þessar fjórar tegundir náms! Takk fyrir þetta Hróbjartur.

    Mig langar að segja ykkur frá persónulegri reynslu sem ég upplifði þegar ég var að byrja að kenna innflytjendum íslensku. Þetta hefur að gera með aðhæfingu í námi sbr. það sem Hróbjartur segir hér að ofan… „á sér stað þegar einstaklingur (eða hópur) þarf að endurvinna hugsanamynstur sem eru til staðar. Slíkt getur gerst t.d. þegar maður verður var við eitthvað í umhverfi sínu sem er ekki í samræmi við það sem maður átti von á… Táknmál og handahreyfingar í ókunnugu landi sem hafa aðra merkingu en maður átti upphaflega von á.“ Ég var að kenna mitt allra fyrstu námskeið í íslensku 1 (s.s.fyrir byrjendur) og í hópnum var fólk m.a. frá Rússlandi, Spáni, Póllandi, Argentínu og Kína. Ég gerði mitt besta til að skapa jákvæðan og uppbyggjandi anda í hópnum og fólkið var frábært. En hvað um það. Það sem kom mér mest á óvart eftir 5 vikna tímabil með þessu dásamlega fólki var að kínverska konan í hópnum sem kunni hvað minnst var alltaf jákvæð og brosandi. Þegar við æfðum ákveðna þætti og endurtókum kom mér á óvart að hún hló/brosti alltaf og „sló“ framhluta handarinnar létt á munn sér. Ég var algjörlega dolfallin yfir því hvað manneskjan var jákvæð í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Það var ekki fyrr en ég ræddi þetta við samkennara minn (sem hafði dvalist í Kína í þrjú ár) að hún útskýrði fyrir mér að Kínverjar geri þetta þegar þeir eru óöryggir og í raun ýmsir Asíubúar. Þarna mistúlkaði ég ákveðna hegðun nemanda vegna þess að ég tengdi við minn reynsluheim og hafði ekki þessa þekkingu sem ég öðlaðist við að tala við samkennara! En mikið þótti mér gott að vita þetta í framhaldinu því ég átti eftir að kenna mjög mörgum frá Asíu. Já, þannig að við þurfum oft að endurvinna hugsanamynstur okkur útfrá umhverfinu – og læra að taka tillit!

Skildu eftir svar